142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar hef ég lýst því yfir að við munum greiða fyrir þeim málum sem lúta hér á sumarþinginu að verðtryggingu og lækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna. Sem fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar lagði ég mikla áherslu á að gengið væri lengra í átt að afnámi verðtryggingar og í lækkun á skuldum heimilanna og taldi það því sjálfsagt.

Þetta eru þess vegna vonbrigði. Ríkisstjórnin kemur tómhent til sumarþings með ekkert frumvarp um afnám verðtryggingar eða lækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna. Aðeins þingsályktun um nefnd sem á að skila af sér í nóvember sem þýðir að þegar við komum til haustþings verða hér heldur ekki nein frumvörp um þessi efni, sem þýðir væntanlega að búið er að fresta aðgerðum fram til ársins 2014, fyrst hinar mögulegu leiðir eiga fyrst að liggja fyrir í nóvember.

Nú spyr ég nýjan formann efnahags- og viðskiptanefndar hvað fulltrúa löggjafarvaldsins finnist um þessa tímaáætlun framkvæmdarvaldsins, hvort þetta gangi ekki allt of hægt fram. Hvort það sé ekki mikilvægt að við fáum aðgerðir strax eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði, engar nefndir eða starfshópa. Eða sagði hv. þingmaður ekki sjálfur fyrir kosningar að hægt væri að grípa til þessara aðgerða núna strax?

Ég minni hv. þingmann á að fyrir þinginu liggur til dæmis frumvarp sem hefur verið samið og flutt af fyrrverandi þingmanni, Lilju Mósesdóttur, fjórum sinnum, lyklafrumvarpið, síðast á þingskjali 23, mál 23, á þinginu í vetur leið. Það er lyklafrumvarpið sem báðir flokkarnir lofuðu. Hvers vegna er það ekki bara ljósritað og gert að lögum hér í næstu viku? Ögmundur Jónasson er að flytja tillögu um nauðungarsölu. Er það Sjálfstæðisflokkurinn sem stendur í vegi Framsóknarflokksins fyrir því að gengið sé í að grípa til þeirra aðgerða strax sem lofað var. Og mun ekki formaður efnahags- og viðskiptanefndar kalla eftir því að þessum málum verði ekki frestað til ársins 2014? Telur hann ekki óviðunandi að fólk búi við þá óvissu á fasteignamarkaði í lánamálum sínum sem leiðir til þess að fólk tekst ekki á við fjárhagsvanda sinn af því að það liggur ekki (Forseti hringir.) fyrir hver staða þess er?