142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir spurninguna og lýsa ánægju minni með að gera einmitt þetta mál að fyrstu framsögu minni hér á þinginu. Ég vil líka fagna áhuga hv. þingmanns á skjótri leiðréttingu lána heimilanna og afnámi verðtryggingar. Það eru okkar sameiginlegu áhugamál.

Ég þarf trúlega að byrja á því að leiðrétta útbreiddan misskilning þar sem sagt er og haft eftir mér í Morgunblaðinu 23. apríl 2013 í fyrirsögn, með leyfi forseta:

„Segir heimilin fá leiðréttingu strax.“

Það er haft eftir mér en tekið úr samhengi. Ég ætla að lesa fyrir ykkur samhengið, það er örstutt, með leyfi forseta:

„Frosti Sigurjónsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins, í Reykjavík segir að þær krónueignir kröfuhafa í þrotabúum bankanna, sem framsóknarmenn vilja að notaðir verði til að lækka skuldir heimilanna, megi greiða til bankanna á 15–20 árum. Höfuðstóll lána einstaklinga lækki hins vegar strax þegar“ — þegar — „aðgerðin komi til framkvæmda.“

Það er mikilvægt að samhengi týnist ekki, en allt í lagi. Að því hvenær er hægt að koma þessu öllu í verk, öllum þeim leiðréttingum sem við viljum vinna að. Það hefur verið lögð fram áætlun í tíu liðum með aðgerðum sem eru bæði markvissar og tímasettar og tímasetningar flestar á þessu ári. Allt það sem við getum gert núna á sumarþinginu verður gert en ný ríkisstjórn vill vanda til verka, vill vinna þær rannsóknir og greina áhrif sem þarf að greina og líka vinna að víðtækri sátt um þær aðgerðir sem verður farið í. Ég bind vonir við að þetta muni ekki ganga hægar en það þarf að ganga. Þakka ykkur fyrir.