142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Töluverð umræða hefur orðið um skipan í nefndir á Alþingi og þá með hvaða hætti kynjahlutfall birtist í einstökum nefndum. Það er alveg ljóst að á meðan konur eru innan við 40% þingmanna mun skiptingin verða áþekk í nefndum þingsins. Þannig er það og því þarf kannski fyrst og síðast að hefja sókn kvenna til að jafnt vægi kvenna og karla verði á Alþingi því að vart munum við binda það í lög.

Hins vegar finnst mér við í umræðunni og orðræðan úti í samfélaginu um mikilvægi nefnda vera svolítið sérstök. Mér þykir merkilegt ef það þykir sérkennilegt að í efnahags- og viðskiptanefnd sitji eingöngu karlar af því að það sé svo áhrifamikil og þung nefnd. Síðan kemur velferðarnefnd til tals þar sem sitja fleiri konur og það sé skrýtið vegna þess að hún sé svona og svona. Ég held að við þurfum pínulítið sjálf að ákveða orðræðuna um mikilvægi nefnda á þingi. Í mínum huga endurspeglar þessi umræða nákvæmlega hvernig launakjör eru í þessum stéttum. Þeir sem starfa í viðskiptum hafa hærri laun en þeir sem starfa í velferðarmálum. Ef við hér á Alþingi ætlum að láta þessa orðræðu líka birtast í því með hvaða hætti við lítum til þeirra nefnda sem hér eru og teljum sjálf sumar nefndir mikilvægari en aðrar þá breytum við hvorki viðhorfum né skoðunum til karla og kvenna eða til jafnréttis.

Mér finnst ástæða til að við sem þingmenn veltum þessum málum aðeins fyrir okkur samhliða því að við reynum eins og hægt er að hafa jöfn kynjahlutföll í nefndum. Hins vegar verður áhugi, hæfni og reynsla líka að fá að ráða för.