142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eitt meginmarkmið síðustu ríkisstjórnar var að minnka skuldsetningu og gera ríkisfjármálin sjálfbær. Enginn deilir um að töluverður árangur hefur náðst hvað það varðar. Það er því ekki að ósekju að maður velti fyrir sér hver fyrstu spor þessarar ríkisstjórnar eru.

Með stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er búið að setja skulda- og lánamál heimilanna ásamt ríkisfjármálaáætluninni í fullkomið uppnám. Það er búið lofa stórkostlegum aðgerðum í skuldamálum upp á mörg hundruð milljarða. Horfurnar eru þó ekki verri en svo að í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra kemur fram samdráttur í tekjum ríkissjóðs upp á tugi milljarða króna á næsta eina og hálfa árinu.

Ríkisstjórnin talar stöðugt um skynsamlegt skattkerfi. Hvað er það? Að skattkerfið verði aftur eins og áður? Að ekki megi breyta sköttum á almenning eða fyrirtæki? Að lækka skatta á tekjur, vörur og þjónustu — er það ekki lækkun á virðisaukaskatti? Hver prósenta kostar milljarða.

Breyting á tekjuskatti. Lækkun tekjuskatts þýðir lækkun skatta á ríkari hluta þjóðarinnar og þá allra ríkustu því að þar hækkuðu þeir ásamt sköttum á fjármagnstekjur og fyrirtæki. Þeir hækkuðu ekki annars staðar.

Á fyrsta fundi fjárlaganefndar í morgun var ákveðið að kalla eftir veikleikagreiningu á fyrsta frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem felur í sér tekjufall upp á rúman hálfan milljarð á þessu ári — fyrsta frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Í Hagsjá í dag kemur fram að samneysla hafi aukist að raungildi um 0,9% á sl. ári og er gert ráð fyrir að hún aukist áfram næstu þrjú árin. Þessar tölur koma engum á óvart og eru staðfesting á því aðhaldi sem hefur ríkt í opinberum rekstri á undanförnum árum. Þar er einnig áréttað mikilvægi þess að slaka ekki á þeim markmiðum sem unnið hefur verið að og halda áfram verulegu aðhaldi í ríkisrekstrinum. Vakin er athygli á að tilslakanir í aðhaldi ríkisfjármálanna, t.d. með afléttingu skatta, geti haft neikvæðar afleiðingar í för með sér.

Á þessu virðast núverandi ríkisstjórnarflokkar ekki átta sig enda koma þeir algerlega óundirbúnir til þessa þings. Það sem þjóðinni er boðið upp á er þingsályktunartillaga um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sem hefur þann stóra galla að í henni felast engar aðgerðir. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin er í rauninni að biðja þingið um að biðja sig að setja á fót nefndir.