142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hafði nú hugsað mér að vera jómfrú örlítið lengur en það er eins og það er. Ég er ekki mjög útgjaldaglaður maður og ég hef oft hugsað, þegar ég hef hlustað á umræður hér sem leikmaður úti í bæ, um öll þessi útgjöld, en við verðum samt að hugsa um grunnstoðir íslensks samfélags. Alls staðar vantar peninga, alls staðar getur þetta nýst vel og allt er þetta mikilvægt, en það eru samt grunnstoðirnar sem verða að vera í lagi því að ef þær eru ekki í lagi er allt annað ónýtt. Það er ekki flóknara en það.

Ég vil því í þessari stuttu ræðu minni nú minna á mikilvægi þess að við förum í aðgerðir til að bæta stöðu íslenskra dómstóla og ákæruvalds í landinu því að — og ég ætla að nota vinsælt orð — ástandið í þeim málum er komið að þolmörkum. Ég held að í raun og veru séu þetta afskaplega lítil útgjöld þegar búið er að koma á millidómstiginu, búið að fækka í Hæstarétti í eina deild, þá eru þetta ekki miklir peningar. Við höfum raunverulega alltaf vanrækt þetta dómstólakerfi og ákæruvald vegna þess að það hefur fúnkerað þrátt fyrir allt. Við höfum ekki haft áhyggjur af því, meðan þeir ná að dæma einhverja misindismenn í fangelsi þá erum við sátt, en þetta er miklu flóknara en það. Takk fyrir.