142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[15:49]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að taka þetta upp, en einnig svör hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og tek undir flest af hans svörum.

Rammaáætlun varð til hjá fagaðilum. Hugmyndafræði við rammaáætlun var að skapa sátt milli ólíkra hagsmuna, verndar og nýtingar. Stefna okkar varðandi rammaáætlun 3 er að nú þegar er búið að skipa verkefnisstjórn sem fráfarandi ríkisstjórn gerði og hefur hún þegar hafið störf. Sú verkefnisstjórn mun taka fyrst til faglegrar skoðunar, í samræmi við lög og reglur, þá virkjunarkosti sem mest umræða var um á síðasta þingi. Þetta eru sex virkjunarkostir, þrír í neðri hluta Þjórsár, Skrokkalda og Hágöngur 1 og 2. Einnig tveir kostir sem síðasta verkefnisstjórn náði ekki að ljúka, ýmist vegna þess að gögn bárust of seint eða týndust og þá erum við að tala um Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun neðri við Atley.

Að mati okkar framsóknarmanna voru pólitísk fingraför á niðurstöðu síðustu ríkisstjórnar þegar rammaáætlun var kláruð 14. janúar síðastliðinn. Við viljum færa verkið til vegs og virðingar að nýju. Því fer núverandi verkefnisstjórn í að kanna þessa kosti í samræmi við lög og reglur.

Þar fyrir utan hefur hæstv. landbúnaðar-, sjávarútvegs- og umhverfisráðherra beint því til verkefnisstjórnar að kanna sérstaklega hvort stækkun á Búrfellsvirkjun, Blöndu og fleiri þurfi að fara í ferli til rammaáætlunar. Sé svo verða þær teknar til skoðunar. Þetta eru væntanlega okkar umhverfisvænustu og bestu virkjunarkostir, en einnig hagkvæmustu.