142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[15:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í ljósi upplýstrar umræðu um þetta mál viljum við byrja á að benda á að Píratar eru ekki á móti virkjunum, en þær þurfa að vera sjálfbærar ef það á að nýta þessar auðlindir. Það sem ég lærði í dag á sameiginlegum fundi umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar var að ekki er sami skilningur lagður í sjálfbærnihugtakið, eins og margir Íslendingar nota það, þegar kemur t.d. að Orkustofnun og umræðunni hér í þingsal hjá mörgum hverjum. Þannig að þegar menn nota orðið sjálfbærni halda flestir að verið sé að tala um sjálfbæra nýtingu sem ber sig sjálf til frambúðar. Flestir halda að hugtakið „sustainability“, með leyfi forseta, þýði „actually sustains itself“, það heldur áfram.

En orðið eins og það er notað, sjálfbær vinnsla, sjálfbær nýting, verið er að tala um að það endist í 100–300 ár. Bara til að halda því til haga er ekki verið að tala um að nýtingin sé sjálfbær til frambúðar fyrir allar komandi kynslóðir, verið er að tala um að hægt sé að ganga á auðlindina þar til hún er gengin til þurrðar á 100–300 árum.