142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[15:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að halda því til haga að á sama tíma og Landsvirkjun hefur það að markmiði að hámarka arðsemi af orkuauðlindum okkar telja stjórnendur Landsvirkjunar að sú stefna sem rekin hefur verið síðustu ár hjá Landsvirkjun, þ.e. síðustu áratugi, um uppbyggingu á raforkukerfinu á Íslandi hafi verið hárrétt. Hún hafi í senn verið nauðsynleg og hárrétt vegna þess að við þurftum að fara í stórar framkvæmdir, við þurftum að fá stóra kaupendur til þess að byggja upp þá nauðsynlegu innviði sem raforkukerfi okkar byggir á. Þeir telja að við þessar aðstæður sé raunhæft að ná fram betri kjörum, að ná fram betra verði fyrir þá raforkuframleiðslu sem við leggjum í í framtíðinni. En á sama tíma telja þeir sig geta boðið samkeppnishæfustu kjör á raforku í Evrópu. Samkeppnisstaða okkar ætti miðað við yfirlýsingar þeirra að vera mjög sterk.

Það sem stendur upp úr í rammaáætlun eru auðvitað þær röngu áherslur sem endurspeglast í niðurstöðu hennar, eins og hún liggur fyrir, þar sem er annars vegar um jarðvarmavirkjanir og hins vegar vatnsaflsvirkjanir að ræða. Vatnsaflsvirkjanir eru algjörlega fyrirsjáanlegar, hægt er að reikna út arðsemina eins og hún kemur út um leið og virkjunarframkvæmdum er lokið. Hins vegar eru jarðvarmaveiturnar háðar meiri óvissu og eru ekki eins hagkvæmar. Það er nefnilega mjög rangt í rammaáætlun að blanda því ekki saman, jarðvarmakostunum sem við þurfum að byggja upp hægt og bítandi til þess að ganga ekki of hratt á þau svæði, en að styrkja raforkuframleiðsluna með nýtingu á vatnsaflskostum á sama tíma.

Það voru því augljós mistök þegar virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár, einhverjir hagkvæmustu virkjunarkostir sem við höfum í dag, voru teknir út úr nýtingarflokki rammaáætlunar. Rökin sem voru notuð standast enga skoðun, það að laxastofninn í Þjórsá sé í einhverri hættu. Í 22 ár hefur Landsvirkjun fylgst með þessum laxastofni. Það er búið að búa til líkan af flóðlokum og seiðafleytun (Forseti hringir.) til loka ársins 2012 þannig að ekki er hægt að (Forseti hringir.) gera frekari rannsóknir á þessu. (Forseti hringir.) Það verður að láta reyna á niðurstöðuna.