142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[16:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég verð að segja að það vekur vissulega ótta og áhyggjur af stöðu nýsamþykktrar rammaáætlunar þær yfirlýsingar sem ráðherrar hinnar nýju ríkisstjórnar hafa gefið undanfarna daga og vikur. Fram hafa komið yfirlýsingar frá sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra um að þegar sé hafin vinna í ráðuneyti hans við að taka upp rammaáætlun og átta virkjunarkostir séu til endurskoðunar og skoðunar. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að hún vilji sjá álver sem fyrst í Helguvík og leita allra leiða til að skoða ívilnanir fyrir þær framkvæmdir, jafnvel aftur í tímann, sem ég segi að geti nú ekki staðist ef það er skoðað. Undir þetta hafa tekið bæði hæstv. forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Því vekur það vissulega ugg hjá mér og örugglega fleiri landsmönnum hver stefna ríkisstjórnarinnar er og hvert hún er að fara.

Við komum alltaf að sömu spurningunni: Hvar á að fá orkuna? Á hvaða verði á hún að vera? Og yfir höfuð, ef það er til orka, viljum við þá nýta hana í enn frekari stóriðju? Viljum við virkja fyrir stóriðju?

Ég vil treysta því að Landsvirkjun starfi eftir nýjum samþykktum sínum og vinni á faglegum grunni og horfi til nýtingar auðlindarinnar með sjálfbærum hætti og horfi til heildarhagsmuna komandi kynslóða. Þessi ofurtrú nýkjörinnar hægri stjórnar á stóriðjulausnum er með ólíkindum þar sem allt segir okkur að álverð í heiminum fari lækkandi og birgðir safnist upp. Ég skil ekki þá hagstjórn og efnahagslegu hugsun hjá núverandi ríkisstjórn ef hún er algjörlega blind á stóriðjudrauma sína og láti sem hún heyri ekki þessar fréttir. Ég treysti því að menn (Forseti hringir.) hætti þessum vinnubrögðum (Forseti hringir.) og láti nýjar kynslóðir og náttúruna (Forseti hringir.) njóta vafans.