142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[16:02]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég get alveg verið sammála honum um það að Landsvirkjun ætlum við að reka á arðsemisgrundvelli og láta arðsemina ráða. Arðsemi er ekki aðeins hagnaður í ársreikningum Landsvirkjunar, arðsemi er líka samfélagslegur hagnaður. Við skulum ekki gleyma því. Landsvirkjun hefur verið rekin með góðri arðsemi. Þar er bæði góð eiginfjárstaða í dag og samfélagsáhrifin leyna sér ekki.

Rammaáætlun. Mér fannst fyrri ríkisstjórn breyta rammaáætlun óþarflega mikið, þ.e. meiri áhersla er þar lögð á gufuaflsvirkjanir en vatnsaflsvirkjanir. Gufuaflsvirkjanir eru ekki, eins og fram hefur komið hérna, eins arðsamar, þær eru líka áhættumeiri þannig að við þurfum að hafa þetta í bland.

Ég get sagt við ykkur, stjórnarandstæðingar, að það eru óþarfaáhyggjur hjá ykkur að við séum að fara að breyta rammaáætlun eitthvað pólitískt. Við ætlum einmitt að fara að vinna eftir rammaáætlun eins og fagmenn skiluðu henni. Það ætlum við að gera.