142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[16:04]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er af mikilli gleði og djúpri auðmýkt sem ég stíg hérna upp í þennan ræðustól í fyrsta skipti. Ég fagna því að gert hafi verið plan til framtíðar hvað varðar nýtingu virkjunarkosta. Það er upplýsandi og gott vinnulag sem ýtir undir stöðugleika. Að sama skapi verðum við að leggja áherslu á að reksturinn í kringum þær virkjanir sem ráðist er í sé arðbær fyrir eigendurna sem erum við öll, þjóðin.

Landsvirkjun þarf að meta hverja framkvæmd sem hún fer af stað með út frá þeim áætlunum sem liggja fyrir. Í hvert slíkt verkefni þarf að fara ákveðið mikið eigið fé, sem er ríkisfé, og til að koma stóru verkefni af stað þarf Landsvirkjun líka að auka skuldir sínar, taka lán. Þá verður Landsvirkjun að líta til þess hvort kaupendur að orkunni séu áreiðanlegir og hve mikið eigi að fást fyrir orkuna svo að vel sé. Að síðustu þarf svo að tryggja að lánin sem tekin eru séu á góðum kjörum svo að ríkissjóður lendi ekki í sömu stöðu og Orkuveita Reykjavíkur og bankarnir hafa staðið frammi fyrir. Þessir þrír þættir, efnahagsreikningur Landsvirkjunar, lánakjör og arðsemi, þurfa að standast tímans tönn.

Það liggur fyrir að gjaldeyri vantar inn í landið. Það liggur líka fyrir að hjól atvinnulífsins þurfa að snúast hraðar. Reyndar held ég að við ættum að bæta fleiri hjólum þar við, alls konar að lögun og stærð.

Mér hefur í þessu sambandi, herra forseti, sýnst núverandi ríkisstjórn renna hýru auga til stóriðju og frekari virkjana. Ef ætlunin er að líta á Landsvirkjun sem verkfæri í atvinnu- og byggðastefnu til að skila gjaldeyrissjóði hratt inn í þjóðarbúið er spurningin sem þingheimur mun án efa þurfa að spyrja sig fljótlega þessi: Er réttlætanlegt að við förum í verkefni á vegum ríkisins sem hafa ekki nægjanlega háa arðsemiskröfu? Ber ekki að líta til áhættunnar sem ríkið tekur með aukinni skuldasöfnun á fyrirtæki í ríkiseigu?

Því spyr ég hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvað hann ætli sér í þessum efnum. Hvað er að hans mati ásættanleg arðsemiskrafa á þær virkjanir sem þurfa að knýja Helguvík? Hvaða lánsupphæð finnst ríkisstjórninni ásættanlegt að ríkið gangist í ábyrgð fyrir hjá Landsvirkjun til að álver megi rísa?