142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[16:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa góðu umræðu og vil nú segja að það kemur mér ánægjulega á óvart að sjá þann góða samhljóm sem er í þessari umræðu.

Ég fagna því sem ég skildi sem staðfestingu af hálfu hæstv. fjármálaráðherra á því að viðskiptaleg sjónarmið yrðu áfram látin ráða og ég treysti að í því felist að ekki verði hróflað við arðsemisstefnu Landsvirkjunar. Mér finnst það athyglisverð ábending frá hv. þm. Róberti Marshall að það sé einfaldlega ástæða til að þingið samþykki þingsályktunartillögu um eigendastefnu fyrir Landsvirkjun þannig að það verði algjörlega í gadda slegið að þetta verði gert á arðsemisforsendum.

Ég vil líka minna á það að þó svo að við getum séð ákveðin sjónarmið varðandi samfélagslegan ávinning á einstökum stöðum, og ég er alveg sammála því sem hér kom fram, þá eru líka gríðarleg tækifæri í aukinni arðsemi Landsvirkjunar ef borið er saman við norska Statkraft til dæmis. Það er hægt að auka arðsemi Landsvirkjunar mikið. Það er mikilvægt að við gerum það þannig að þetta fyrirtæki verði okkur sannkölluð gullgæs, en samt þannig að allt verði það gert með sjálfbærum hætti og við göngum vel um náttúrugæði.

Ég fagna líka yfirlýsingu hv. þm. Haraldar Einarssonar, talsmanns Framsóknarflokksins, hér í jómfrúrræðu sinni þegar hann lýsti þeirri fyrirætlun, eins og ég skildi hann, að ekki væri ætlunin að brjóta upp ferli rammaáætlunar heldur væru framsóknarmenn einfaldlega að tala fyrir því að sem fyrst kæmu niðurstöður úr þeim rannsóknum sem þegar hefur verið efnt til. Ég held að við getum öll sammælst um það og getum þá hætt að þræta um það eða ýja að því að það eigi að fara að brjóta upp rammaáætlun. Ég held að þetta sé nákvæmlega niðurstaða sem við öll getum sammælst um. Ég fagna því sem sagt hefur verið í því efni.

Síðan vil ég bara undirstrika að lokum mikilvægi þess að við höldum samstöðunni um það að virkja ekki til að leysa úr tímabundnum efnahagsvanda því að það er orðið algjörlega sannað að það er óskynsamleg leið. Það er miklu betra að setja langtímasjónarmið og hafa þau að leiðarljósi og byggja á grundvallarforsendum sjálfbærrar þróunar.