142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[16:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Því hefur stundum verið haldið fram að krafan um nýja stjórnarskrá eða frumsamda stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland hafi komið fram eftir hrun efnahagslífsins. Það er alls ekki svo. Krafan um nýja stjórnarskrá hefur verið á lofti alveg frá því að við öðluðumst sjálfstæði 1944 en það hefur gengið brösuglega að semja þjóðinni stjórnarskrá. Sú stjórnarskrá sem við búum við á rætur að rekja til dönsku stjórnarskrárinnar sem við bjuggum við áður. Það hefur því verið langt ferli og langvarandi viðleitni að reyna að setja þjóðinni frumsamda stjórnarskrá, að segja má, saminni af íslensku fólki.

Við komumst ansi langt með þetta verkefni á síðasta kjörtímabili. Það höfðu verið hugmyndir á kreiki löngu fyrir hrun um að koma á fót sérstöku stjórnlagaþingi vegna þess að þinginu sjálfu, Alþingi, sem er stjórnarskrárgjafinn, hafði gengið brösuglega að endursemja stjórnarskrána. Þetta var gert. Það var farið af stað í ferli sem var samkomulag um á síðasta kjörtímabili. Það var byrjað á þjóðfundi sem var vel heppnaður þótt einhverjir hafi fengið stöðumælasekt fyrir utan Laugardalshöll. Þar var rætt um öll helstu gildin sem áttu að vera í nýrri stjórnarskrá. Þetta var í rauninni mjög merkilegt. Fólkið á fundinum var að hluta til fengið með slembiúrtaki og að hluta til valið. Svo tók stjórnlaganefnd við niðurstöðu fundarins og gerði ítarlega skýrslu og síðan var kosið til stjórnlagaþings sem varð síðan stjórnlagaráð. Um flest allt, nema náttúrlega það sem gerðist þegar stjórnlagaþing varð stjórnlagaráð, var mikil sátt.

Niðurstaðan úr þessu öllu saman voru mjög framsækin og góð drög að nýrri stjórnarskrá — ekki endilega fullkomin drög, í þeim er mjög margt sem þarf að ræða. Við fórum í þjóðaratkvæðagreiðslu um drögin og niðurstaða hennar, með yfirgnæfandi meiri hluta, var að setja ætti þjóðinni nýja stjórnarskrá á grunni tillagna stjórnlagaráðs.

Svo ég tali fyrir mitt leyti þá finnst mér að við eigum, og það ætti að vera leiðarljós í starfi okkar á Alþingi, að klára ferlið. Mér finnst að sú hugsun eigi að ráða för í málinu. Þetta ferli var hafið og ekki að ástæðulausu, það var rík ástæða fyrir því að fara með drögin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Núna þurfum við á þessu þingi að klára þetta. Því miður gafst ekki tími til þess á síðasta þingi, það var hugsanlega að mörgu leyti fyrirsjáanlegt, en alla vega var það staðreynd sem blasti við. Núna getum við klárað það. Mér finnst það vera skylda okkar hér inni að klára þetta ferli og bera virðingu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fór fram 20. október og reyna að leiða þetta mál til lykta.

Sú tillaga sem við ræðum hér, stjórnarskrárbreytingin sem var gerð í lok síðasta þings og við munum vonandi staðfesta á þessu þingi og þar með öðlast hún gildi, snýst einungis um að gera þessu þingi auðveldara að fara í stjórnarskrárbreytingar. Hún opnar glugga. Þetta er bara viðbót við breytingarákvæðið sem fyrir er í stjórnarskránni. Hún opnar möguleika á því að við getum haldið áfram á þessu þingi með fyrirliggjandi stjórnarskrárdrög, með allar þær góðu athugasemdir sem eru fyrir hendi við þau drög, haldið áfram vinnunni og farið með niðurstöðuna í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er að mörgu leyti miklu betra að mínu mati að fara með svona yfirgripsmiklar stjórnarskrárbreytingar, svo ekki sé talað um heildarendurskoðun, jafnvel heila stjórnarskrá, í bindandi þjóðaratkvæði. Mér finnst það miklu betri niðurstaða fyrir stjórnarskrárbreytingar en gert er ráð fyrir í núverandi stjórnarskrá.

Mér finnst það hafa komið í ljós í raun og veru í vinnunni á síðasta kjörtímabili að það fyrirkomulag að tvö þing þurfi til breytinga og alltaf þurfi að boða til alþingiskosninga þegar breyta þarf stjórnarskrá hentar ekki heildarendurskoðun eins og við vorum að glíma við á síðasta þingi. Stjórnarskráin var bitbein í aðdraganda kosninga. Það er óheppilegt. Alþingiskosningarnar sem fóru fram 27. apríl sköpuðu óeðlilega pressu á málið.

Núna getum við haldið áfram endurskoðuninni án þess að skapa þá pressu. Við getum farið með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar við erum búin að ná sátt í þingsal með tveimur þriðju hluta þingmanna. Þetta er miklu betri leið að mínu viti fyrir heildarendurskoðun á stjórnarskrá.

Ég skora eindregið á þingheim að staðfesta frumvarpið og fara svo í það í sameiningu í þingsal að skilgreina hvernig við ætlum að hafa ferlið áfram. Okkur ber skylda til að taka þennan bolta og ljúka málinu sem því miður tókst ekki að klára á síðasta þingi. Ég skora á þingheim að gera það.