142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili voru gerðar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands og breytingarnar sættu mikilli gagnrýni stjórnarandstöðunnar og var mikið talað á Alþingi um það. Það var einnig lögð fram tillaga til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta og hún var mikið gagnrýnd og ekki síður mikið rædd og taldi minni hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, með leyfi forseta, „þessa snöggsoðnu málsmeðferð með öllu óviðunandi“.

Nú bregður svo við að talsverðar breytingar eru gerðar á ráðuneytisskipan og það er gert, að því er mér skilst, samþykkt eða farið yfir það á fyrsta fundi hæstv. ríkisstjórnar og það án þess að svo mikið sem kynna þær á Alþingi, án þess að þær séu bornar undir Alþingi.

Við hv. þm. Birgir Ármannsson áttum alllöng samtöl um þetta á síðasta þingi og mig langaði þess vegna til að spyrja hann hvernig honum litist á þær breytingar sem hafa nú verið gerðar og málsmeðferðina í því sambandi. Hvað finnst honum um að breytingarnar hafi ekki verið bornar undir þingið, hvað þá kynntar? Og telur hv. þingmaður, sem er kunnáttumaður um umhverfismál, viðunandi fyrirkomulag að það málefni sé í fóstri hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra?

Jafnframt dettur mér í hug að spyrja hv. þingmann, af því að maðurinn er löglærður, hvort það standist 4. gr. stjórnarráðslaga, þar sem stendur, með leyfi forseta, „að eðlislík stjórnarmálefni heyri undir sama ráðuneyti“, að flytja Árnastofnun og eitthvað sem kallað er þjóðmenningu úr menntamálaráðuneytinu í forsætisráðuneytið. Er það þá bara erlend menning sem heyrir undir menntamálaráðuneytið héðan í frá?