142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur er kunnugt um er ég hrifnastur af því fyrirkomulagi Stjórnarráðsins sem var ákveðið 1969 þannig að þær breytingar sem voru gerðar á síðasta kjörtímabili voru mér lítt að skapi. Þar var hins vegar opnað fyrir heimild til ákveðinna breytinga sem ný ríkisstjórn nýtir sér. Breytingarnar sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir beitti sér fyrir á síðasta þingi gera að verkum að ný ríkisstjórn getur gert þær breytingar sem hún hefur þegar boðað en þær eru hins vegar fullkomlega minni háttar miðað við þær breytingar sem staðið var að á síðasta kjörtímabili.

Ég verð að segja að að því leyti sem breytingar hafa verið boðaðar á skipan málefna í Stjórnarráðinu styð ég þær vegna þess að ég held að þær fari í meginatriðum aðeins til baka frá því sem breytt var fyrir kosningar. Það er verið að bakka með margt af því sem þar var ákveðið sem ég var á móti og því get ég mjög vel fellt mig við þær breytingar sem nú liggja fyrir.

Ég hefði reyndar viljað ganga lengra, taka til baka fleiri af þeim breytingum sem síðasta ríkisstjórn ákvað í þessum efnum, en um það hefur ekki verið samkomulag innan flokka eða milli flokka þannig að það verður ekki. Mín persónulega skoðun í þessum efnum hefur ekki náð fram að ganga en ef ég hannaði þetta eftir eigin höfði mundi ég fara töluvert lengra aftur í tímann til að finna fyrirmyndina frekar en gert hefur verið.