142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherrar, forsvarsmenn hægri stjórnarinnar, héldu blaðamannafund í gær og fylgdu þar úr hlaði óljósum yfirlýsingum sínum hér í þinginu um að vandi ríkissjóðs væri erfiðari en þeir héldu. Þau gögn sem upplýsingar til blaðamanna byggðu á hefur hv. fjárlaganefnd ekki fengið að sjá. Þó var haldinn fundur í nefndinni stuttu áður en blaðamannafundurinn var haldinn. Það er nauðsynlegt að hv. þingmenn fái svo mikilvægar upplýsingar í hendur sem fyrst og að þeim sé gert kleift að sinna mikilvægu eftirlitshlutverki sínu. Því hef ég óskað eftir því að haldinn verði fundur í nefndinni sem allra fyrst og eigi síðar en í fyrramálið svo að nefndarmönnum sé gert kleift að taka þátt í þessari mikilvægu og alvarlegu umræðu og um leið gert kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Hæstv. ráðherrar boða að vegna bágrar stöðu ríkissjóðs þurfi að hætta við ýmis fyrirhuguð útgjöld og nefna þar sérstaklega tannlækningar barna og stuðning við skuldug heimili með lánsveð. Þrátt fyrir þá staðreynd að hækkun virðisaukaskatts á þá sem kaupa hótelþjónustu hækki heildarferðakostnað erlendra ferðamanna hingað til lands aðeins um 1% og þrátt fyrir gífurlega fjölgun þeirra er gerð tillaga um að fella niður tekjur af komu þeirra upp á vel á annan milljarð og á mesta gróðaskeiði íslenskrar útgerðar er gerð tillaga um að lækka veiðigjaldið um enn fleiri milljarða.

Virðulegur forseti. Er einhver hissa á því að fólki finnist líklegt að hægri stjórnin ætli að svíkja kosningaloforð sín, sem voru fyrir heimilin og fyrir fólkið í landinu, þegar aðgerðir sem lagðar eru fram eru fyrir LÍÚ og fyrir erlenda ferðamenn, en hætta á við aðgerðir sem eru fyrir heimilin og börnin í landinu.