142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir hlýjar móttökur og árnaðaróskir í mínu starfi. Síðar í dag, á þessum fimmta fundi sumarþings, verður lögð fram tillaga til ályktunar þingsins um aðgerðir vegna skuldavanda heimila. Við felum ríkisstjórninni að framfylgja aðgerðaáætlun sem hún leggur til. Í umræðunni hér á þingi undanfarna daga hefur stjórnarandstaðan lýst eftir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa í umræðu um hin ýmsu mál sem hafa verið á dagskrá þingsins hingað til spurt eftir því máli. Óþreyjan er skiljanleg hjá okkur öllum.

Það er ekki ætlan mín að ræða ályktunina efnislega enda málið á dagskrá þingsins í dag. Ég vil frekar leggja áherslu á að málið er viðamikið, það er fjölþætt en um leið viðkvæmt og vandasamt. Það kallar á ítarlega áætlun. Það má sjá af þeirri aðgerðaáætlun sem birtist okkur í nokkrum liðum, misumfangsmiklir eða flóknir eftir atvikum.

Í þeim stefnumótunarfræðum sem ég þekki til er ígrunduð, ábyrgðarvædd og tímasett áætlun forsenda þess að stefna gangi eftir, að við getum öll tekið þátt í því að komast á leiðarenda hvar í flokki sem við erum. Þjóðin á það skilið, heimilin eiga það skilið.

Ég vil svo að lokum þakka gagnlega og gjöfula umræðu á fyrstu dögum þingsins.