142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom inn á hér áðan. Á síðasta kjörtímabili sat ég í forsætisnefnd þingsins og forseti þingsins, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, átti mörg og ítrekuð samtöl við borgaryfirvöld um það skipulag sem nú liggur fyrir á torfunni í kringum Alþingishúsið. Mörg bréf voru rituð til borgarstjórnar um að það þrengdi að Alþingi, þrengdi að þeirri víðáttu, ef við getum leyft okkur að kalla Austurvöll víðáttu, og að ósæmandi væri að fara í slíkar skipulagsbreytingar án samráðs og viðtals við Alþingi Íslendinga.

Sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður veit ég að skipulagsyfirvaldið er hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur það og það tekur enginn af henni. En það virðingarleysi sem borgaryfirvöld hafa sýnt Alþingi Íslendinga með þessu skipulagi er með ólíkindum og öllu því sem hefur verið gert og beðið um að yrði gert á Alþingisreitnum hafa borgaryfirvöld staðið í vegi fyrir.

Ég fagna því þeirri umræðu sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hóf hér og skora á þingmenn að hafa skoðun á því hvaða skipulagsbreytingar eru í farvatninu á þessu svæði, hvaða áhrif þær hafa á ásýnd Alþingishússins og umhverfis þess, fyrir utan umferðaröngþveitið sem mun skapast með nýju hóteli sem er fyrirhugað að rísi í gamla símahúsinu. Það skiptir máli að þessu húsi hér sé sýnd virðing og því umhverfi sem Alþingi er að reyna að byggja upp á þessum stað. Ég skora á þingmenn að hafa skoðun á skipulagsbreytingum Reykjavíkurborgar á þessu svæði og að við tökum höndum saman um að koma í veg fyrir að þær nái fram að ganga.