142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég bað um orðið öðru sinni undir þessum dagskrárlið til að bregðast við ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur þar sem hún dró með orðum sínum úr trúverðugleika þeirrar sem hér stendur. Það er rétt að ég var fjármálaráðherra á síðasta kjörtímabili, en ég var einnig ráðherra ferðamála um stundarsakir og þekki málið ákaflega vel.

Í meðförum þingsins og í meðförum ráðuneyta og að teknu tilliti til athugasemda hagsmunaaðila var tillögunni breytt þannig að virðisaukaskattshækkunin fór ekki í 25,5% heldur í 14% og einnig til að taka tillit til verðlagningar sumra hótel- og gistiheimila yfir sumartímann var gildistöku frestað til 1. september.

Einnig finnst mér undarleg sú athugasemd hv. þingmanns þegar henni finnst sjálfsagt að mikilvægum og alvarlegum upplýsingum sé haldið frá hv. fjárlaganefnd af því að einhvern tíma hafi verið gerð mistök (UBK: Hvenær sagði ég það?) á síðasta kjörtímabili. Ég hef ævinlega talað fyrir því að þingmenn fái upplýsingar og sá til þess þegar ég var framkvæmdarvaldsmegin og ég ætlast til þess af hægri stjórninni sem hefur nýlega tekið við völdum að hún upplýsi þingmenn og láti þá hafa gögn svo að þeir geti sinnt sínu mikilvæga starfi og ekki síst gögn sem fjárlaganefnd þarf að vinna með. Öðruvísi getur hún ekki rækt sitt lögbundna hlutverk.