142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að standa í miklum þrætum við minn ágæta kollega, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, en ég verð þó að segja að þær breytingar sem nú eru gerðar á verkaskiptingu ráðuneyta og sú breyting að fleiri en einn ráðherra fari með málefni sem heyra undir eitt ráðuneyti, eins og er í tilviki atvinnuvegaráðuneytis og í velferðarráðuneyti, er í fullu samræmi við þær breytingar sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir mælti mjög fyrir hér á síðasta tímabili. Ég verð hins vegar að segja að mín persónulega skoðun og ef ég ætti að ráða þessu einn yrði gengið töluvert lengra í þá átt að taka til baka þær breytingar sem gerðar voru á ráðuneytaskipan á síðasta kjörtímabili. (ÖS: Leggja niður umhverfisráðuneytið?) — Ekkert endilega. Fyrst rætt er um þetta á þessum forsendum eru önnur atriði sem ég teldi að væru framar í röðinni í sambandi við breytingar, en ég vil bara vekja athygli á því að það sem er verið að gera núna er algerlega minni háttar í samanburði við þær breytingar sem fóru í gegnum þingið á síðasta kjörtímabili og opnað var á miðað við þá breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands sem hér voru samþykktar gegn andmælum mínum og fleiri hv. þingmanna.