142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:04]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Kunnara er en frá þurfi að segja að tíðarfar til búskapar víða um land hefur verið erfitt undanfarna mánuði. Óvenjumiklir þurrkar voru víða síðastliðið sumar. Það þýddi verulega minni uppskeru af túnum. Ofan í það kom mikill óveðurshvellur snemma í september sem olli miklum búfjárskaða og verulegu tjóni á mannvirkjum. Kom það fram í fréttum og var rætt hér á hinu háa Alþingi. Áföll í fyrrasumar og haust þýddu einnig að bændur þurftu að taka búpening sinn fyrr á gjöf en venja er. Sumir áttu ekki nóg fóður og brugðust við með því að fækka á fóðrum og draga saman búskap, aðrir hafa þurft að kaupa hey og leggja í mikinn kostnað við flutninga landshluta á milli.

Nú er komið í ljós að kalskemmdir á túnum eru óvenjumiklar á Norður- og Austurlandi, gróflega sagt frá Ströndum og austur á Fljótsdalshérað. Við höfum í raun og veru ekki séð slíkt tjón í áratugi hér á landi. Ástandið nú er nánast dæmalaust. Kaltjón þýðir aðeins eitt, að ekki er hægt að búast við uppskeru nema ráðist sé í að endurrækta tún. Á endurræktuðum túnum á þessu sumri verður vart um fulla uppskeru að ræða.

Ég og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson heimsóttum fyrir skömmu bændur í Skagafirði ásamt ráðunautum á svæðinu og áttum samtal við bændur, skoðuðum tún og sáum þá miklu eyðileggingu sem þar hafði orðið. Á einu litlu svæði í því héraði sáum við að endurrækta þyrfti um 100 hektara og lágmarksendurræktunarkostnaðar á hvern hektara er 150–200 þús. kr. Inni í því er ekki uppskerutap og kostnaður vegna fóðurkaupa.

Mér er kunnugt um að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur heimsótt bændur og kynnt sér ástand mála. Vil ég þakka ráðherranum fyrir viðbrögð hans.

Ég vil líka minna á að stöðug óveður og snjóar hafa skapað ýmsan aukakostnað fyrir bændur, til dæmis vegna snjómoksturs og annarra erfiðleika vegna ófærðar og óveðurs, að ekki sé talað um girðingar en tjón af þeim er vart komið í ljós þar sem víðast hvar hefur enn ekki verið hægt að hefja viðhald á þeim.

Ein birtingarmynd til viðbótar sem rétt er að nefna er að í einhverjum tilfellum hefur ekki verið hægt að setja út lambfé vegna snjóalaga. Annars staðar kemst það ekki í úthaga af sömu ástæðu. Því er ljóst að á nokkrum bæjum verður ekki hægt að setja út mjólkurkýr eða aðra nautgripi á beit fyrr en líður á sumarið, því að ekki er uppskera á nýræktun fyrr en á líður.

Þurrt sumar og lítil hey eru vart vandamál eitt og sér. Það er í sjálfu sér ekki vandamál að vetur leggist snemma yfir. Bændur vita að íslensk náttúra getur farið óblíðum höndum um þá. Hins vegar er óvenjulegt að þegar allt þetta leggst saman, ásamt því að tún koma stórskemmd undan vetri og gjafatími er einstaklega langur til viðbótar, hafa nú bæst við flóð í ám og aurskriður sem einnig hafa valdið skaða í einhverjum tilfellum.

Eftir að hafa verið á vettvangi og tekið þátt í að vinna úr vanda þeirra sveita sem illa fóru í afleiðingum eldgosa í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum hef ég þá sýn á ástandið núna að það er verulega stærra og snertir miklu fleiri bændur en áhrif eldgosanna á sínum tíma.

Því vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort fyrir liggi heildarúttekt á umfangi tjóns bænda af völdum kals og annarra skaða sem orðið hafa í vetur. Kemur til greina að settar verði sérreglur til að mæta óbeinum áföllum sem stafa af vetrarhörkum, svo sem vegna fóðurkaupa eða annarra sambærilegra þátta? Hvenær verður svars að vænta hvort og á hvern hátt stjórnvöld hyggjast koma til aðstoðar?

Herra forseti. Ég vil skora á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka málefni þetta föstum tökum. Það myndaðist sterk og góð samstaða um viðbrögð vegna eldgosa og vegna afleiðinga septemberóveðursins síðastliðið haust á hinu háa Alþingi. Fyrrverandi ríkisstjórn vann þar gott starf og samstaða myndaðist líka um að vinna úr eftirmálum eldgosa á sínum tíma.

Það skiptir miklu máli að við tökum þennan vanda alvarlega og til umræðu. Þess vegna óskaði ég eftir þessari sérstöku umræðu. Ég vil leggja áherslu á við ráðherrann að hann lýsi sem fyrst skýrt yfir hvort hann hyggst beita sér fyrir því að þetta tjón verði að einhverju leyti bætt og með því verði vanda bænda mætt. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir bændur sem hafa orðið fyrir tjóni og byggðirnar sem byggja á landbúnaði á þessum áhrifasvæðum nú.