142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér kaltjón og harðindi sem bændur á norðanverðu landinu, Austfjörðum og á fleiri svæðum eins og Vestfjörðum hafa orðið fyrir. Það er ekkert óeðlilegt að bændur séu áhyggjufullir miðað við þá stöðu. Þessi vetur hefur auðvitað verið bændum mjög þungur í skauti, menn hafa þurft að halda fé á húsum langt fram á vor og á mörgum svæðum jafnvel þurft að kaupa hey fyrir háar fjárhæðir. Mér finnst ekkert óeðlilegt að menn reikni með að ríkisvaldið komi með einhverjum hætti að stuðningi við bændur vegna þess að bændur hafa fengið stuðning, þegar eldgosið var, eins og komið var inn á áðan, og þegar vond veður geisuðu á norðanverðu landinu síðastliðið haust. Mér finnst mjög eðlilegt að ríkisvaldið gefi bændum skýr skilaboð um að það sé tilbúið til að mæta þessu alvarlega tjóni með stuðningi.

Það er auðvitað líka eðlilegt að það liggi fyrir heildarmat á hve tjónið er mikið. Eins og ég skil það er verið að gera úttekt á því og við þurfum að bíða eftir henni Ég tel nauðsynlegt að atvinnuveganefnd fái að fylgjast með þróun þeirra mála og hæstv. ráðherra upplýsi okkur um slíkt og síðan komi í ljós hvað ríkisvaldið getur lagt af mörkum. Bjargráðasjóður er illa settur eins og komið hefur fram. Ég styð það heils hugar eins og ég gerði þegar fyrri ríkisstjórn kom myndarlega að stuðningi við bændur við svona erfiðar aðstæður og náttúruhamfarir, sem ég tel að þetta sé líka.