142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka mjög málefnalega umræðu. Það hefur komið skýrt fram að menn standa þétt saman, sama hvar í flokki þeir standa og sama hvaðan af landinu þeir koma, þegar náttúruhamfarir ganga yfir og valda okkur landsmönnum tjóni. Hafi ég ekki talað nógu skýrt áðan er það alveg klárt að núverandi ríkisstjórn mun koma að stuðningi við þetta verkefni. Þess vegna settum við í gang starfshóp fyrir allnokkru, þegar ljóst var að tjónið yrði verulegt, með Bændasamtökunum og fleirum innan ráðuneytisins til að finna út þær reglur sem við þyrftum að vinna eftir og átta okkur á stöðunni.

Það er líka rétt að við höfum verið að bíða eftir því að sjá hvert heildartjónið yrði. Það er rétt sem fram hefur komið og ég sagði frá í fyrri ræðu minni að það er mun umfangsmeira en menn óttuðust og kannski eru ekki öll kurl komin til grafar enn. Það var fyrst og fremst kaltjónið sem ég nefndi í ræðu minni.

Varðandi ágæta tillögu hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur um að leggja niður fóðursjóð þá gerðum við það á síðasta þingi, að tillögu hæstv. forseta og þess sem hér stendur og ríkisstjórnin tók mjög greiðlega undir það. Þannig að hann er horfinn sögu. (KLM: Eins og margt frá …) Sama hvaðan gott kemur, hv. þm. Kristján L. Möller.

Varðandi framtíðarskipulagið sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir kom inn á hefur nú þegar verið unnið áfram að því innan ráðuneytanna á grundvelli þeirrar vinnu sem lá fyrir. Ég hef líka rætt við ýmsa forsvarsmenn Bændasamtaka Íslands og fleiri um að það þurfi einmitt að fara í þann farveg. Það eru mjög margir sem horfa til þess. Ég spurði sjálfur margoft á síðasta þingi hæstv. forsætisráðherra hvort vinna væri ekki í gangi á einmitt þeim nótum sem hv. þingmaður lýsti. Ég horfi til þess að unnið verði áfram að þeim þætti þegar við erum búin að ljúka þessu verkefni. Það ætlum við að gera og munum horfa til þess núna á allra næstu dögum og vikum.