142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[11:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að hressa upp á minni hv. þingmanns þá er það svo að í lögunum frá 2013, eins og réttilega kom fram hjá hv. þingmanni, verður breyting á varðandi hlutverk stjórnarinnar. Þar segir, með leyfi forseta, í 10. gr.

„Að móta í samvinnu við útvarpsstjóra dagskrárstefnu og megináherslur í starfi Ríkisútvarpsins til lengri tíma.“

Með öðrum orðum, það er langtímastefnumótun hvað það varðar, ekki afskipti af dagskrá frá degi til dags eins og ég reikna með að hv. þingmaður hafi haft áhyggjur af.

Ég lýsti áðan í mínu máli að ég tel að það sé ekkert líklegra eða öllu heldur það að setja á valnefnd, eins og þarna var lagt upp með, það sé engin trygging fyrir því að einhver minni pólitísk afskipti verði ef svo má kalla með þeirri aðferð heldur en gera það bara beint í gegnum Alþingi Íslendinga.

Þannig er að ráðuneytinu höfðu borist tilnefningar í þá nefnd að hluta til eins og ég fór yfir í ræðu minni. Það voru reyndar mjög góðir og gegnir einstaklingar sem ég treysti mjög vel. Bandalag íslenskra listamanna hafði skipað fyrrverandi þingmann, Kolbrúnu Halldórsdóttur, í þá nefnd. Síðan höfðu verið nefnd frá háskólanum Ólafur Þ. Harðarson og Ragnheiður Skúladóttir, þetta er ágætt fólk. En ég veit ekkert hvernig verður með næstu tilnefningu o.s.frv. Þetta hangir mjög á einstaklingunum. Ég treysti því ágætlega til dæmis að fyrrverandi þingmaður, Kolbrún Halldórsdóttir, hefði sinnt starfi sínu mjög vel ef til þess hefði komið, ég er sannfærður um það. En ég vil ekki hafa þannig kerfi sem byggir á þessu svona.

Ég held að skynsamlegra sé að láta þingið gera þetta með þessum hætti, það sé skýrara, lýðræðislegra og gegnsærra. Þess vegna sé ég, alla vega fyrsta kastið, ekki ástæðu til að breyta lögunum frá 2013 vegna þess að hafi menn gert þessa breytingu þá hafa þeir gert hana vísvitandi og ég tel að það hafi verið allt að því mikil bjartsýni að halda það að svona valnefnd eins og hér er verið að tala um verði eitthvað ópólitísk, mikil bjartsýni.