142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[11:47]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leggja áherslu á að gríðarlega mikilvægt er að í stjórn Ríkisútvarpsins sé skipað með faglegum hætti og menn séu fyrst og fremst að horfa til þess að þar raðist inn einstaklingar sem hafi þekkingu á rekstri en geti líka komið með skoðanir og hafi reynslu á sviði dagskrárstjórnunar, mótun dagskrárstefnu o.s.frv.

Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra í því að það sé jákvæður og eðlilegur, opinn og lýðræðislegur farvegur að sjö manna pólitískt skipuð stjórn móti dagskrárstefnu til langs tíma. Eðli málsins samkvæmt myndast meiri hluti í slíkri stjórn sem mótar þá eins og hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni og svari við andsvari dagskrárstefnu til langs tíma. Hvað þýðir það? Er dagskrárstefna mótuð af pólitískum fulltrúum til langs tíma betri en dagskrárstefna til skamms tíma? Ég er ekki viss um það.

Ég ítreka þessi aðvörunarorð mín að ef menn ætla að færa þetta aftur í hið fyrra horf þá sé eðlilegra að menn setji saman stjórn sem er þá pólitískt skipuð sem hafi fyrst og fremst rekstrarlega aðkomu að stofnuninni en sé ekki í því að móta dagskrárstefnu.