142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[11:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst mikilvægt að inna hæstv. ráðherra nánar eftir því hvað hann eigi við þegar hann segir hér í framsögu með þessu máli að pólitíkin — og væntanlega var hann að vísa til ráðherra — gæti haft veruleg áhrif og ekkert minni áhrif inn í valnefndina í gegnum tengsl við háskólana eða háskólasamfélagið. Ráðherrann sagði að ekki þyrfti að skýra það frekar út, það mætti skilja það þannig að öllum væri ljóst hvað hann ætti við. En ég verð að segja fyrir mína parta að ég tel að hæstv. ráðherra verði að skýra betur út hvað hann á við með þessu.

Er hann að gefa í skyn að ráðherra mennta- og menningarmála hafi einhver sérstök tök á háskólasamfélaginu, geti með pólitískum þrýstingi eða einhverjum öðrum aðgerðum, t.d. með því að beita valdi sínu sem ráðherra yfir háskólanum almennt, í fjárlagatillögum háskólans og öðru slíku, beitt háskólann pólitískum þrýstingi til að velja í valnefndina — nota bene inn í valnefndina, ekki endilega þar með inn í stjórnina sjálfa heldur inn í valnefndina — þá sem ráðherranum eru þóknanlegir? Ég tel að ráðherrann verði að skýra þetta betur út. Hvað á hann nákvæmlega við með þessu og eru einhver merki þess að tilburðir í þessa veru hafi verið hafðir uppi? Eða er það ráðherrann sjálfur sem óttast sjálfan sig í þessari stöðu, að hann mundi hugsanlega beita valdi sínu með þeim hætti sem hann hér lýsir?