142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[11:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ágæt fyrirspurn hjá hv. þingmanni sem hóf spurningu sína á því að segja að hann áttaði sig ekki á því um hvað gæti verið að ræða en svo kom í ljós í fyrirspurninni að hann kunni öll trikkin við þetta allt saman, hann kunni öll brögðin, hvernig hægt væri að beita þvingunum o.s.frv.

Nei, ekki hef ég komið að málinu. Það var ekki ég sem lagði það til við Bandalag íslenskra listamanna að það mundi skipa Kolbrúnu Halldórsdóttur sem fulltrúa í stjórnina, alveg langt í frá. Ég hef heldur ekki átt nein samtöl við háskólana og ég er alveg klár á því að forveri minn hefur ekki gert það heldur.

En það sem ég er að vísa til er að það gæti einhvern tíma komið hér frekur og gírugur menntamálaráðherra sem ætlaði sér að beita þrýstingi. Það getur vel verið að sá ímyndaði hæstv. ráðherra mundi einmitt leita í þær aðferðir sem hv. þingmaður rakti nokkuð í fyrirspurn sinni. Með öðrum orðum: Slíkar aðferðir eru til eins og hv. þingmaður greinilega þekkir.

Það skiptir þess vegna máli að menn búi ekki til falskt öryggi, búi ekki til falska fagmennsku, falska fjarlægð, heldur hafi hlutina á þann veg að þeir séu uppi á borðum, þeir séu skýrir, að það sé skýrt hverjir bera ábyrgð á hverju, og að þeir sem bera ábyrgðina þurfi að standa frammi fyrir kjósendum með reglubundnum hætti og skýra út hvaða ákvörðun þeir hafa tekið og bera ábyrgð þar á. Það er miklu lýðræðislegra en það fyrirkomulag sem hér er lagt upp með.

En ég vil ítreka það, vegna orða hv. þingmanns, að það er fjarri lagi að ég hafi nokkuð komið þarna nærri enda held ég að þessar tilnefningar hafi verið komnar fram áður en ég tók við embætti. En ég er að hugsa til framtíðar, ég er að huga að því kerfi sem er í smíðum. Það verður að vera kerfi sem stendur og það verður að vera hafið yfir þennan vafa sem ég nefndi hér. Ég hef enga tryggingu fyrir því hverjir verða hér menntamálaráðherrar á næstu árum eða áratugum og það getur vel verið að til valda komist menn — og við þekkjum það úr sögunni að í því embætti hafi verið mjög gírugir, öflugir og valdagráðugir menn — sem gætu beitt þeim brögðum sem hv. þingmaður taldi upp.