142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er takmarkað skemmtigildi í því að hlusta á fyrrverandi ráðherra ræða um fyrrverandi málaflokka sína en þó er mér skylt, að ég tel, að koma aðeins upp í umræðu um þetta frumvarp hæstv. menntamálaráðherra og ræða þá breytingu sem hér er lögð til. Í fyrsta lagi af því að ég tel að kannski gæti ákveðins misskilnings í umræðunni um af hverju farin var sú leið í þeim lögum sem voru samþykkt fyrir fjórum mánuðum, af þingmönnum Framsóknarflokksins þar á meðal og einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá. Það kemur mér raunar mjög á óvart að verið sé að leggja til breytingar á lögum fjórum mánuðum eftir að þau eru samþykkt með þessum mikla meiri hluta á þinginu, en mér er það skylt að skýra aðeins hvers vegna þessi leið var farin.

Það var ekki endilega vegna þess að ætlunin væri að draga upp andstæður á milli þess sem við köllum faglegt og þess sem við köllum pólitískt. Ég heyri að hæstv. menntamálaráðherra er mjög upptekinn af því að verið sé að fara í einhvern hráskinnaleik og búa til eitthvað sem sé ópólitískt og heiti faglegt en sé í raun pólitískt. Það var ekki stóra hugsunin á bak við það að breyta fyrirkomulaginu um skipan stjórnar, að breyta skipan stjórnar með þeim hætti sem gert er í gildandi lögum þannig að starfsmenn eignist fulltrúa, þannig að hæstv. menntamálaráðherra skipi formann stjórnar og síðan sé valnefnd sem sé skipuð þremur fulltrúum úr hv. allsherjar- og menntamálanefnd, fulltrúa frá Bandalagi íslenskra listamanna og fulltrúa frá samstarfsnefnd háskólastigsins, sem síðan velji stjórnarmenn. Hugsunin var ekki sú að búa til allsendis ópólitíska stjórn, annars hefði hv. allsherjar- og menntamálanefnd ekki komið að málinu, það var alls ekki hugsunin. Hugsunin var sú að breikka grundvöllinn sem stjórn Ríkisútvarpsins væri skipuð á, ekki síst vegna þess að í aðdraganda þessarar lagasetningar var farið í gríðarlega vinnu. Starfshópur var skipaður sem skilaði skýrslu og benti þar meðal annars á að í þeim lögum sem voru sett árið 2007 þar sem Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag — og það var auðvitað stærsta deiluefnið þá, breytingin á rekstrarforminu, hún var það sem stóð upp úr allri umræðu um þau lög — úr því að svo hefði farið að Ríkisútvarpinu hefði verið breytt í ohf. væri í raun og veru mjög sérkennilegt að hafa stjórn þess félags sem síðan var með mjög takmarkaða ábyrgð í lögum. Í raun og veru var bent á að ef við erum á annað borð með opinber hlutafélög þá hljóti þau að einhverju leyti og flestu leyti, fyrir utan að vera opinber, að vera sambærileg við önnur hlutafélög, þ.e. að stjórn beri ábyrgð á viðkomandi félagi. Í lögunum frá 2007 stóð eingöngu að stjórnin hefði með meiri háttar rekstrarákvarðanir að gera. Því var ljóst að ábyrgðin á Ríkisútvarpinu var orðin mjög óljós í ljósi þess að hluturinn lá hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem ekki mátti hafa afskipti af Ríkisútvarpinu, síðan var stjórn kjörin á Alþingi sem eingöngu mátti fara með meiri háttar rekstrarlegar ákvarðanir og svo var útvarpsstjóri ráðinn ótímabundinni ráðningu.

Allt var þetta til umræðu og gagnrýnt og ég man ekki betur, og ég er viss um að hæstv. menntamálaráðherra man þetta bara nákvæmlega eins og ég, að hv. þingmenn, líka úr röðum Sjálfstæðisflokksins, hafi verið sammála um að þessi ábyrgðarkeðja væri óljós og mjög mikilvægt væri að endurskoða það þegar reynsla væri komin á lögin um að breyta Ríkisútvarpinu, sem áður var stofnun, í opinbert hlutafélag.

Það var mín ákvörðun á sínum tíma að leggja ekki til breytingar á rekstrarformi, sem einmitt, eins og ég nefndi hér áðan, var kannski það umdeildasta við nýju lögin frá 2007 um Ríkisútvarpið, en finna leiðir til að bæta þetta lagaumhverfi. Bæta lagaumhverfið þannig að við gætum verið ánægð með Ríkisútvarpið okkar, þannig að við gætum haft skýra ábyrgð á því hver bæri ábyrgð á hverju þegar kæmi að þessari mikilvægu stofnun og að við mundum tryggja sjálfstæði stofnunarinnar. Það sem var kannski hvað umdeildast í því frumvarpi sem varð að lögum fyrir fjórum mánuðum var einmitt útvarpsgjaldið. Það var tryggt í þeim lögum að útvarpsgjaldið mundi renna óskipt til stofnunarinnar, en það var í raun og veru líka ætlunin með upphaflegu lögunum frá 2007. Því var kippt úr sambandi hér haustið 2008 og hluti af útvarpsgjaldinu, sem við almenningur borgum fyrir að hafa Ríkisútvarp, rann í ríkissjóð. Með þeim lögum var svo staðfest að því skyldi breytt til baka þannig að útvarpsgjaldið sem við greiðum öll mundi renna til Ríkisútvarpsins. Það er auðvitað gríðarlegur liður í því að efla gagnsæi í ríkisfjármálum — og ég er viss um að hæstv. menntamálaráðherra er mér sammála um það, hann getur kannski komið inn á það í andsvarinu sem hann hyggst veita hér á eftir — og hluti af sjálfstæðinu sem átti líka að vera tryggt var að tryggja að stjórn Ríkisútvarpsins endurspeglaði breiðari aðkomu en eingöngu aðkomu Alþingis.

Í því felst ekki að við séum að draga andstæður milli þess sem er faglegt og pólitískt. Ég leyfi mér að segja að að sjálfsögðu eru margir stjórnmálamenn sem eru fullfærir um að starfa á faglegum grunni, og ég þykist nú vita að þeir sem hér sitja séu sammála mér um það, og að sjálfsögðu er fullt af mjög öflugu fagfólki sem hefur sínar pólitísku skoðanir. Það er mjög erfitt að draga einhverja línu þar á milli. Hugsunin var sú að stjórn Ríkisútvarpsins sem fékk aukið verksvið og aukna ábyrgð, þar á meðal að móta langtímadagskrárstefnu, fylgjast með því að jafnréttisstefnu Ríkisútvarpsins væri fylgt, fylgjast með því að allri þeirri ágætu stefnumótun sem þar hefur verið unnin sé fylgt, alveg eins og stjórn í hverju öðru félagi, væri skipuð með breiðri aðkomu. Það var hugsunin á bak við valnefndina.

Önnur hugsun var líka sú að tryggja — og þá fyrirmynd drögum við að einhverju leyti frá norska ríkisútvarpinu sem við höfum litið til, norska ríkisútvarpið er opinbert hlutafélag eins og Ríkisútvarpið okkar og sama má raunar segja um sænska ríkisútvarpið. Íslenska Ríkisútvarpið hefur að mörgu leyti dregið fyrirmyndir sínar frá hinu norska í rekstri sínum. Það er flóknara stjórnskipulag í kringum hið sænska en í hinu norska fyrirkomulagi er það sem sagt þannig að ráðherra skipar raunar alla stjórnina, en gerir það með samráði sem ekki er lögbundið. Nú er lítil hefð fyrir því í íslenskum stjórnmálum að hafa samráð sem ekki er lögbundið. Við höfum þó dæmi um það og ég nefni það bara af því að hæstv. ráðherra situr hér að þau lögmál hafa til dæmis átt við um skipan Þjóðleikhúsráðs. Þar er samráð sem ekki hefur verið lögbundið en hefur ávallt verið haft frá því að lögum um Þjóðleikhúsið var breytt og byggir á samráði milli stjórnmálaflokka og Alþingis. Bara svo því sé haldið til haga, hæstv. menntamálaráðherra.

Hins vegar var ákveðið eftir heilmikið samráð og samtal innan hv. allsherjar- og menntamálanefndar að betra væri að gera þetta með þessum hætti, að leggja það ekki allt í hendur ráðherra því að það fannst mörgum, og þeirra á meðal mér sem hér stendur, allt of mikið ráðherraræði. Mér fannst mikilvægt að halda inni Alþingi sem einum af þeim aðilum sem kæmu að því að velja í stjórnina og því var niðurstaðan þessi valnefnd. Mér finnst mikilvægt úr því að við erum á annað borð að ræða þetta mál að það sé gert á réttum forsendum, að það sé ekki á þeim forsendum að hér sé annars vegar verið að horfa á ópólitískt, pólitískt og hins vegar faglegt, ófaglegt, heldur sé þessi breiði grunnur og tryggt að í stjórn Ríkisútvarpsins komi saman ákveðnir hæfileikar, ákveðin þekking, ákveðið hæfi.

Það er mjög erfitt að lögbinda hæfi eins og við erum stundum að reyna að gera, að þeir sem sitja í stjórn Ríkisútvarpsins skuli allir vera lögfræðingar eða allir svona fræðingar, og þess vegna var líka hugmyndin á bak við valnefndina að hún tryggði að þarna kæmi saman fólk. Þess vegna erum við til að mynda með háskólastigið, þess vegna erum við til að mynda með listamenn því að hver eru meginhlutverk Ríkisútvarpsins sem almannaþjónustumiðils? Það er lýðræðishlutverkið og þess vegna horfum við til háskólanna og það er menningarhlutverkið og þess vegna horfum við til listamanna. Við viljum fá inn í stjórn Ríkisútvarpsins, sem valnefndinni er ætlað að skipa, fólk sem hefur vit á þessum þáttum, fólk sem þekkir þá.

Þegar við veljum í stjórnir á Alþingi vill það oft til þannig að flokkarnir sem eiga möguleika á að velja tilnefna þennan og þeir tilnefna hinn og við gætum alveg setið uppi með að fá sjö lögfræðinga í stjórn Ríkisútvarpsins. Ég spyr hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Hvernig sér hann fyrir sér að samráð verði við skipan stjórnar á Alþingi? Ætlar hann að tryggja að hér verði karlar og konur? Ætlar hann að tryggja að það verði einhverjir ólíkir fulltrúar sem skipist í stjórnina? Það var líka hugsunin á bak við valnefndina, að tryggja ólíka þekkingu og ólíka hæfileika inn í stjórnina. Markmið okkar hlýtur að vera að stjórnin sé sem hæfust til að bera þá gríðarlega miklu ábyrgð að bera ábyrgð á rekstri stærstu menningarstofnunar landsins sem fer með 3–4 milljarða af almannafé. Þá er mjög mikilvægt að stjórnin sé mjög hæf, til hennar veljist mjög hæfir einstaklingar óháð því hvaða skoðanir þeir hafa í pólitík, en þeir hafi hæfi til þess að sitja í stjórn almannaþjónustufjölmiðils.

Þetta finnst mér áhugavert að heyra frá hæstv. menntamálaráðherra. Svo vil ég líka segja að hæstv. ráðherra skýrði það í ræðu sinni að ekkert samráð hefði verið haft við samningu þessa frumvarps í ljósi þess að tíminn var stuttur og hv. allsherjar- og menntamálanefnd ætti í raun og veru núna að vera að skila af sér þeim þremur fulltrúum sem eiga að starfa í valnefndinni og því vildi hæstv. ráðherra koma með frumvarpið fram núna. Það er kannski skýring á því að ekkert samráð var haft, en ekki gott mál.

Ég vil minna á að þegar við lögðum í þá vinnu að fara í að endurskoða lögin um Ríkisútvarpið frá 2007 var haft mjög mikið samráð. Það var leitað til ólíkra hagsmunaaðila úti í samfélaginu, það voru settar á laggirnar nefndir, tvisvar var mælt fyrir málinu á Alþingi og hv. allsherjar- og menntamálanefnd, ég leyfi mér að segja það, gaf sér góðan tíma til þess að skoða málið. Ég var ekki að reka á eftir að málið yrði klárað þegar ég lagði það fram, ekki á síðasta þingi heldur þarsíðasta, því mér fannst þetta stórt mál og mikilvægt að þingið legði vinnu í það, fengi gesti og gæfi sér tíma. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd lagði til talsverðar breytingar á frumvarpinu og mér fannst það gott því það er jú þingið sem er löggjafi.

Hið síðara skipti sem ég lagði frumvarpið fram lagði ég það fram með þeim breytingum sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafði lagt til í fyrra sinni. Þannig fór frumvarpið í gegnum þingið fyrir fjórum mánuðum, eftir vinnu sem hafði staðið frá því að um hana var skipaður starfshópur árið 2009. Mér finnst það ekki góð vinnubrögð að koma fram á sumarþingi með frumvarp sem ekki hefur verið kynnt opinberlega og ekkert samráð hefur verið haft um og skella því hér inn. Væntanlega ætlast hv. menntamálaráðherra til þess að frumvarpið verði klárað á þeim vikum sem þetta sumarþing stendur yfir og í raun og veru taka einn hluta heildarlöggjafar sem er búið að hugsa í samhengi — eins og hv. þm. Róbert Marshall kom inn á var skipan stjórnar breytt samhliða því að hlutverki hennar var breytt, samhliða því að hlutverk Ríkisútvarpsins var skilgreint á nýjan leik, samhliða því að margháttaðar breytingar voru gerðar á lögunum — og mér finnst það, þótt ég skilji alveg þá skýringu sem hæstv. ráðherra leggur fram, ekki góð vinnubrögð.

Ég hefði talið skynsamlegast, af því að þetta er ríkisstjórnin sem kennir sig við skynsemi, hæstv. ráðherra, að leyfa hinu nýja fyrirkomulagi — kanna hvernig það muni reynast og gefa því tækifæri í ljósi þess að það byggir á margra ára vinnu, miklu samráði og er hluti af heild. Ég hefði talið það vænlegra og skynsamlegra en að koma inn með þessa breytingu á stuttu sumarþingi, en fyrst og fremst finnst mér mikilvægt að hv. þingmenn beiti þá hér þeim hugtökum sem eiga við og átti sig á aðdraganda málsins, að hugsunin á bak við þetta var allan tímann sú að tryggja einstaklinga með þekkingu og reynslu inn í stjórn Ríkisútvarpsins og tryggja aðkomu úr ólíkum áttum við val á þeim einstaklingum.