142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er gríðarlegur munur á þessum leiðum því að með þeirri leið sem er í gildandi lögum er tryggð aðkoma hins lýðræðislega kjörna Alþingis í gegnum þá fulltrúa sem allsherjar- og menntamálanefnd tilnefnir en líka fulltrúa annarra aðila. Þetta snýst heldur ekki um það að stjórnin verði skipuð fulltrúum Bandalags íslenskra listamanna eða háskólasamfélagsins. Ástæðan fyrir því að þessir aðilar eru settir í valnefnd er að meginhlutverk Ríkisútvarpsins er annars vegar hið lýðræðislega og hins vegar hið menningarlega. Það er þess vegna. Hlutverk valnefndar er svo að velja saman fólk í stjórn Ríkisútvarpsins sem hefur til þess þekkingu og hæfileika til að sitja þar í stjórn og sinna öllum þeim hlutverkum sem tíunduð eru í lögum um þennan almannaþjónustumiðil, þar á meðal íþróttum og öllu því öðru sem er þar tíundað og að sjálfsögðu er ekki hægt að hafa alla þá fulltrúa í valnefndinni.

Munurinn á aðferðunum er algjörlega ljós. Annars vegar er aðkoma Alþingis tryggð sem og annarra aðila. Hins vegar er allt vald sett undir Alþingi á nýjan leik og það er auðvitað stór munur sem hæstv. ráðherra er að leggja hér inn án þess að hafa haft samráð um breytingu á lögum sem fóru í gegn fyrir fjórum mánuðum eftir ítarlega vinnu, samráð og mikil nefndastörf.