142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil hv. þm. Brynjar Níelsson þannig að hann vilji auka ráðherraræði á Ríkisútvarpinu. Ég gat ekki skilið andsvar hv. þingmanns öðruvísi en svo að honum fyndist eðlilegt að auka ráðherraræði á Ríkisútvarpinu, á almannaþjónustumiðlinum okkar. Þetta finnst mér áhugaverð skilaboð að heyra hér í dag, mjög áhugaverð ef við horfum til almannaþjónustumiðla annars staðar í Evrópu, þó ekki í Grikklandi, því miður. Ég tek undir með hv. þingmanni og flokkssystur hv. þm. Brynjars Níelssonar sem lýsti einmitt áhyggjum af stöðu lýðræðismála í Grikklandi þar sem ríkisútvarpinu var lokað, það var bara slökkt á útsendingum með tilskipun frá stjórnvöldum. Þannig almannaþjónustumiðil viljum við að sjálfsögðu ekki hafa hér.

Það hefur verið nokkuð þverpólitísk sátt um það á Alþingi Íslendinga að við viljum draga úr ráðherraræði þegar kemur að fjölmiðlum. Við erum sammála um það langflest hér inni að við viljum hafa öflugan almannaþjónustumiðil og að við viljum ekki að hann sé undir ráðherraræði heldur viljum við einmitt tryggja eðlilega stjórn á þeim miðli.

Þegar talað er um „fólk úti í bæ“ finnst mér það sýna ákveðna takmarkaða sýn á lýðræðið ef það er eingöngu Alþingi Íslendinga sem fer með lýðræðisvaldið í því samfélagi sem við eigum. Að sjálfsögðu eigum við að leita til sérfræðinga, svokallaðs fólks úti í bæ, þegar við erum að reyna að koma hér saman öflugri stjórn fyrir þessa mikilvægu stofnun, þetta félag sem vissulega er svo á ábyrgð menntamálaráðherra, þar liggur hluturinn í félaginu. Eigi að síður viljum við tryggja þarna öfluga stjórn og þá er að sjálfsögðu eðlilegt að leita til sérfræðinga fræðasamfélagsins, menningarsamfélagsins eða fólks úti í bæ eins og hv. þingmaður kallar það.