142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:26]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ráðherraræði — þetta er eitthvert hugtak sem ég hef bara heyrt hér. Ég er ekkert sérstakur áhugamaður um ráðherraræði í þeim skilningi sem ég held að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sé að hugsa um. Eina sem ég er að velta fyrir mér er að ef stjórnarskráin gerir ráð fyrir ráðherraræði þá verður bara ráðherraræði, þá skulum við bara breyta stjórnarskránni. Það er bara þannig. (Gripið fram í: Þá skaltu reyna það.) Það tókst ekki, þannig að við viljum hafa ráðherraræði. Fólk úti í bæ — auðvitað getur ráðherra leitað til fólks úti í bæ. Ráðherra vill fá fagfólk í stjórnina, hann skipar ekki bara einhverja einstaklinga, og þá leitar hann til fagfélaga úti í bæ. En fagfélagið á ekki að ráða sjálft hvaða einstaklingur fer inn, heldur ráðherra, vegna þess að ráðherrann ber alltaf ábyrgð. Í mínum huga er þetta svo einfalt.

Við getum haft einhverja skoðun á því. Ég efast ekkert um að ráðherrar almennt — maður mundi örugglega hugsa það sjálfur ef maður væri ráðherra — vilja fá fagfólk, ekki bara einhverja pólitíska gæðinga, einhverja sem maður þekkir í flokknum. Maður vill tryggja að það sé alvörufólk í þessari stjórn. Auðvitað er betra að það sé ekki mikið af vinstra fólki. En almennt er það þannig að þú vilt hafa þar fagfólk af því að þú berð ábyrgðina á því.