142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við mál sem er fyrsta mál frá nýskipuðum hæstv. menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, sem ég óska velfarnaðar í störfum. Þetta er fyrsta málið sem kemur hingað inn á sumarþingi og vekur furðu að það skuli vera málið sem á að hleypa í gegn á mjög stuttu tíma, tveimur, hámark þremur vikum ef menn hafa metið rétt hversu langt sumarþing eigi að vera, og að þetta skuli vera þau skilaboð sem hæstv. ráðherra vill gefa sem sín fyrstu skilaboð í menntamálum. Þannig hlýtur maður að hugsa þegar komið er með frumvarp til laga um breytingu á lögum sem eru ekki nema fjögurra mánaða gömul og voru samþykkt með miklum meiri hluta þar sem allir flokkar komu að nema einn, flestir sátu hjá, ég held að atkvæðagreiðslan hafi verið 35 með, fjórir á móti og hinir sátu hjá — að þetta skuli vera fyrsta málið, að það skuli þurfa að breyta stjórnarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins frá því sem samþykkt var í þessum lögum.

Ég verð að viðurkenna að skýringarnar á því af hverju þetta er gert virka afar veikar á mig. Það kann að þvælast fyrir fólki hvenær er um pólitík að ræða og hvenær er faglega unnið. Ég er einn af þeim sem deili þeirri skoðun að það séu ekki andstæður í sjálfu sér heldur geti menn verið pólitískir og faglegir, og stjórnmálamenn séu oft mjög faglegir og margir svokallaðir fagaðilar séu mjög pólitískir. Við skilgreinum stundum pólitík þannig að hún geti verið flokkspólitísk eða hagsmunatengd í gegnum flokkspólitík. Hún getur líka verið menningarpólitísk eða tengd einhverjum ákveðnum viðhorfum til einstakra mála án þess að vera flokkspólitísk.

Þegar við erum að tala um ríkisstjórn sem kemur hér fram með gildi um sátt og samráð, sem maður er afar sáttur við og vill taka þátt í að móta í samfélaginu, er mér algjörlega óskiljanlegt af hverju menn ætla að henda svona máli í gegnum þingið á einum til þremur vikum á sumartíma til að komast hjá því að lög sem eru fjögurra mánaða gömul taki gildi.

Ég hef sjálfur sagt, hafandi verið bæði þingmaður og ráðherra, að við þurfum að losna við svona stjórnsýslu, að um leið og skipt er um ríkisstjórn sem hefur tekið lýðræðislegar ákvarðanir einmitt í viðkvæmum málaflokkum eins og menntamálum, oft heilbrigðismálum og í þessu tilfelli um hina mikilvægustu fjölmiðlastofnun landsins, okkar sameiginlegu eign Ríkisútvarpið, þá sé það ekki háð geðþótta ráðherra á hverjum tíma hvernig farið er með málefni viðkomandi stofnunar.

Ég velti fyrir mér núna: Hvers vegna er verið að þessu? Þá getur maður líka velt fyrir sér: Hvers vegna er verið að hverfa frá því sjónarmiði sem hefur verið mjög ríkt í íslensku samfélagi undanfarin ár eftir hrun en var komið áður, að við mundum draga úr því að þingmenn tækju að sér stjórnarsetu í ríkisstofnunum og gegndu þannig tvöföldu hlutverki? Við vorum að reyna að búa til armslengd sem kallað var, þ.e. að þeir sem vinna á löggjafarsamkomunni á hv. Alþingi væru ekki að víla og díla um stjórnir einstakra stofnana. Í þessu samhengi kom til dæmis eftir hrun stofnun sem heitir Bankasýsla ríkisins þar sem reynt var að búa til millilið þar sem menn gátu sótt um að vera í stjórnum banka, gerðar voru harðar kröfur um það hvert hæfismatið væri og menn síðan valdir í framhaldi af því. Auðvitað má deila um þetta eins og um margt annað. Á þeim tíma, þegar menn voru að deila út þessum gæðum sem ráðherrar, var talað um að verið væri að deila út einhverjum bitlingum til einhverra gæðinga. Allt þetta vildum við losna við.

Þá spyr maður hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Af hverju vill hann fá þetta til baka? Af hverju er verið að kalla á þetta aftur?

Við höfum búið við þetta kerfi áður. Við erum til dæmis með mjög stóran banka sem er Landsbankinn sem er 98% eign eða verður það hjá ríkinu. Ætlum við að gera þetta með sama hætti? Ég er ekki talsmaður þess. Ég held að við eigum að reyna að finna aðrar leiðir en þá að það séu tilnefningar frá pólitískum flokkum á Alþingi í allar stjórnir og ráð í stofnunum sem eru reknar af ríkinu. Það er ekki vegna þess að það geti ekki verið pólitík í afgreiðslu í stjórn Ríkisútvarpsins þó að það sé valið með öðrum hætti. Það getur líka verið alveg öfugt, við erum ekki að ásaka það fólk sem stýrt hefur Ríkisútvarpinu undanfarin ár um að það hafi beitt einhverjum pólitískum áhrifum þar inni. En það er ástæðulaust að búa til þannig fyrirkomulag að hægt sé að tortryggja það. Mér sýnist, án þess að hafa átt sæti í hv. allsherjar- og menntamálanefnd á þeim tíma þegar þetta var ákveðið en er kominn þangað núna, að þetta hafi verið hugmyndin á bak við að búa til valnefnd.

Mér finnst hæstv. ráðherra tala svolítið glannalega þegar hann talar um að Alþingi sé valnefndin í dag, vitandi það að ég hef aldrei setið hér í þingsal þar sem hafa komið tilnefningar frá meiri hluta og minna hluta og mynduð hefur verið einhver stjórn með meiri hluta og minni hluta, að umræða í þinginu hafi verið um það. Ég hef aldrei tekið þátt í því að velja fulltrúa stjórnarandstöðu eða stjórnarmeirihluta eftir því í hvoru hlutverkinu ég er. Þetta eru tilnefningar frá flokkum, ógjarnan umræður um einstaklinga, og þær eru yfirleitt aldrei ræddar. Það á ekkert skylt við að Alþingi sé eins konar valnefnd hvað þetta varðar.

Tökum eftir því að þegar verið er að búa til valnefnd þá hef ég skilið það þannig að verið sé að búa til valnefnd til að skipa stjórn. Það þýðir ekki að valnefndin velji fulltrúa úr sínum hópi, þ.e. að listamenn velji endilega listamann í stjórn. Ég hafði séð að menn gætu jafnvel gengið lengra en gert er hér og það hefði verið gaman að sjá stigið það skref að auglýst væri eftir hæfileikafólki sem uppfyllti skilyrði um hæfiskröfur til stjórnar Ríkisútvarpsins og valnefndin veldi úr þeim hópi. Þar yrðu gerðar harðar skilgreindar kröfur. Menn mættu ekki hafa nein hagsmunatengsl við aðra fjölmiðla, hvorki ljósvakamiðla né prentmiðla, þannig að beinir augljósir hagsmunaárekstrar væru á milli þeirra sem skipuðu stjórnina og þeirra sem færu með mál. Það yrði auðvitað valnefndin sem diskúteraði til sáttar um þessa fimm fulltrúa.

Talandi um ráðherraábyrgð á þessari stjórn þá er auðvitað búið að tryggja hana með því að formaðurinn yrði kosinn beint af ráðherra og þannig hefði hann tengsl til að fylgjast með hvernig gengi varðandi stofnunina. Ég held að það hefði verið skynsamlegra.

Við erum að fara að vinna hér að málum sem við erum sammála um að eru forgangsmál, sem eru hagsmunir heimilanna og afkoma fólks. Við sátum undir ræðum hér á vorþingi ítrekað, m.a. frá hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra sem kom þá sem formaður þingflokks og margskammaði okkur fyrir að taka hin og þessi mál á dagskrá sem væru ekki í neinum tengslum við hagsmuni heimilanna, gögnuðust þeim ekki neitt, en hann kemur svo sjálfur inn á sumarþing með mál, sem á að afgreiðast með skemmri skírn, sem ég get ekki séð að bæti með neinu móti hag heimilanna að fá breytt.

Ég skora á menntamálaráðherra að fara nú eftir því fyrirkomulagi sem er í lögunum sem eru fjögurra mánaða gömul. Ég skal hjálpa honum að svæfa þetta í nefnd ef það getur hjálpað honum til að taka þessa ákvörðun. Við sátum á fyrsta fundi í morgun í allsherjar- og menntamálanefnd og hefðum alveg getað tekið til umræðu hvernig við veldum þessa þrjá fulltrúa í valnefnd til að flýta fyrir málinu þannig að hægt væri að afgreiða það í næstu viku svo að við færum eftir lögunum í staðinn fyrir að taka hér prinsippumræðu um hvort eigi að fara aftur í tímann þar sem við ætlum að láta reyna á það hvort við getum skapað traust á því að Alþingi fari með einhvers konar bitlingafyrirkomulagi að skipa stjórnir beint. Við erum að reyna að fara út úr því fyrirkomulagi. Ég hefði viljað að við fetuðum þá leið lengra en færum ekki strax til baka við það að hér kæmi ný ríkisstjórn.

Ég vona að málið fái umfjöllun og helst vildi ég að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra drægi þetta mál til baka og leyfði okkur að hafa fókusinn á því sem við héldum að sumarþingið ætti að fjalla um.