142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar. Mér láðist að nefna að frá samstarfsnefnd háskólastigsins barst líka tilnefning um Ragnheiði Skúladóttur. Ég vil að því sé haldið til haga.

Hv. þingmaður biðst undan því að vera metinn af kjósendum sínum út frá því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hagar sínum málum í þinginu. Ég held að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af slíku. Hann verður bara að hafa áhyggjur af eigin verkum og hvernig kjósendur meta þau næstu fjögur árin. Við erum nýbúin að ganga í gegnum kosningar þar sem kjósendur gáfu okkur einhvers konar einkunn, nú vinnum við með það og það myndast nýr meiri hluti.

Hvað fyrirkomulagið varðar er ástæðan fyrir því að ég legg fram þetta frumvarp sú að ég tel að það sé galli í þessu, hann sé augljós og liggi fyrir. Gallinn er sá að þegar menn setja upp valnefnd með þessum hætti hefur það þann stóra ólýðræðislega ókost að búið er til fyrirkomulag þar sem er tekin ákvörðun um jafn mikilvægan hlut og þann hverjir sitja í stjórn Ríkisútvarpsins þar sem þeir sem taka ákvörðunina þurfa ekki að bera ábyrgð á henni gagnvart t.d. kjósendum í landinu, þjóðinni sjálfri.

Vissulega má færa fyrir því rök að það sé kannski ólíklegt að þetta mál eitt og sér ráði öllu um það hvernig fólk greiðir atkvæði, en það getur skipt máli, það hefur áhrif og á að hafa áhrif. Það er galli sem ég sé við valnefnd í þessu fyrirkomulagi. Það getur átt mjög vel við hjá mörgum öðrum stofnunum að hafa valnefnd en ég tel að svo sé ekki hér. Þá er alveg eftir umræðan um það hverjir eiga nákvæmlega að sitja í valnefndinni. Það er hægt að færa fyrir því rök að margir aðrir hópar í samfélaginu ættu að eiga fulltrúa við það borð. Það er dálítið undarlegt hversu þröngt þessi valnefnd er skilgreind ef maður vill ræða það.

Ég tel að þetta fyrirkomulag sé gallað og það hafi þann stóra galla sem ég var að lýsa. Því sé betra að láta þessar breytingar ekki koma til framkvæmda. (Forseti hringir.) Þær eru ekki stórvægilegar. Það sem meira er, það er ekki verið að fara lengra aftur í (Forseti hringir.) tímann en svo að ekki er búið að koma þessu í framkvæmd, það eru fjórir mánuðir síðan (Forseti hringir.) lögin voru sett. Við höfum reynsluna af hinu.