142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[13:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að vekja máls á þessu efni í sérstakri umræðu. En við fjöllum ekki bara um þjóðmenningu heldur stöðu þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni. Það er við hæfi að vekja athygli á því sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um þetta málefni vegna þess að rætt hefur verið um það í nokkrum atriðum en ekki farið yfir það í heild sinni. Vissulega kemur það fram í inngangi stefnuyfirlýsingarinnar að íslensk þjóðmenning skuli vera í hávegum höfð og að henni hlúð og hún efld. Það er mikilvægt að sú áhersla komi fram.

Jafnframt verður lögð áhersla á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar auk rannsóknar og fræðslu. Þá verður unnið að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu innan lands sem utan. Vegna þess að mér heyrðist vera vikið að því í umræðunni þá kemur fram á blaðsíðu 9 í stefnuyfirlýsingunni að standa þurfi vörð um íslenska tungu, efla rannsóknir á þróun tungumálsins og styrkja stöðu íslensks táknmáls. Ég held að það sé gríðarlega mikilvæg yfirlýsing sem þar kemur fram.

Við þekkjum sögu annarra þjóða þar sem ekki hefur tekist nægjanlega vel að vernda tunguna. Við þekkjum þjóðir eins og til dæmis Lettland þar sem menn standa í mikilli baráttu fyrir því að vernda tungumál sitt og þjóðlögin sín svo þau glatist ekki út úr menningu þeirra. Þess vegna eigum við að fagna því hér að ríkisstjórnarflokkarnir leggi áherslu á að styrkja þessi mál bæði innan Stjórnarráðsins og líka almennt í samfélaginu. Ég vona svo sannarlega að okkur öllum hér gefist færi á því að koma að þeirri vinnu og að okkur takist vel til við að búa vel að þessum málum til framtíðar fyrir íslenska þjóð.