142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[13:53]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu máli. Við ræðum þjóðmenninguna. Auðvitað fagna ég því þegar menn leggja áherslu á menningu og sögulegan arf en þið takið kannski eftir að ég talaði um menningu og sögulegan arf en ekki íslenska þjóðmenningu. Það var viljandi vegna þess að það getur orðið býsna merkileg umræða þegar við förum að skilgreina hvað er íslenskt og hvað er erlent í sögu þjóðar sem verið hefur í nánum tengslum við erlenda aðila. Í því felst sú hætta að við förum í einhverja rétttrúnaðartúlkun um hvað var rétt á hverjum tíma.

Ég hef engar athugasemdir við það að mál séu vistuð á einhverjum ákveðnum stað í ráðuneytum eða að menn leggi áherslu á málaflokkinn en ég vara við þessari rétttrúnaðarhugsun. Ég ætla að nota þær mínútur sem ég á eftir til að segja frá upplifun minni þegar ég heimsótti Fanø rétt við Jótlandsstrendur fyrir mörgum árum og hitti þar íslenska konu sem hét Þórunn Wíum, blessuð sé minning hennar. Hún lifði af því að búa til Fanø-þjóðbúninga. Hún bjó í elsta húsinu á eyjunni. Mér fannst merkilegt þegar hún útskýrði fyrir okkur menninguna á þessum stað, þá sagði hún okkur að menningin væri lifandi jafnvel þó að hún rifjaði upp fortíð. Þegar við spurðum hvernig réttur þjóðbúningur væri svaraði hún: Hann var aldrei réttur vegna þess að hann réðst af því hvaða efni maður fékk frá Austurlöndum, frá Asíulöndunum til þess að nota í þjóðbúninginn. Húsin breyttust, þeir dönsuðu „Sönderhoning“, sem var sérstakt dansform, en þeir notuðu nýju lögin í það og breyttu takti.

Ætlum við að færa okkur í eitthvert fast samband sem heitir íslensk þjóðmenning, bundin við ákveðinn tíma? Svar mitt er nei. Við eigum að vera með lifandi menningu sem tekur mið af því umhverfi sem er á hverjum tíma með þeim alþjóðlegu áhrifum sem eru á hverjum stað á hverjum tíma eins og íslenskt samfélag hefur alltaf verið, (Forseti hringir.) enda erum við þjóð sem kom frá Norðurlöndunum og Írlandi á sínum tíma.