142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[13:55]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hlýjar móttökur, jákvæðni og gagnlega aðstoð á nýjum vinnustað. Mig langar líka að vekja athygli á því mikilsverða hlutverki stjórnmálamanna að reyna að einfalda og útskýra mál frekar en að flækja þau. Það ætla ég að reyna að temja mér þó að ég viti að það verði ekki alltaf auðvelt. Þess vegna þakka ég hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að hefja umræðu um þjóðmenningu. Þjóðmenning er stórt orð. Það merkir samkvæmt orðabókinni andleg og verkleg menning þjóðar. Ekki minnkar orðið við þá skilgreiningu, en eins og fram hefur komið erum við hér að fjalla um flutning ákveðinna verkefna tengdum þjóðmenningu milli ráðuneyta þar sem markmiðið er að forsætisráðuneytið taki tímabundið að sér að sinna tilteknum málum sem ríkisstjórnin vill leggja sérstaka áherslu á.

Ætlunin er að forsætisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið starfi saman með það að markmiði að efla enn frekar stefnumótun á þessu sviði og vinna betur að þessum málaflokkum en gert hefur verið. Áherslan verður meðal annars lögð á stefnumótun við vernd sögulegra og menningartengdra byggða og umhverfis- og skipulagsmál því tengd. Þjóðminjasafnið og Minjastofnun Íslands flytjast til en flest söfn landsins og safnasjóður munu samt sem áður áfram heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Aukin áhersla á þjóðmenningu styrkir okkur sem fjölmenningarsamfélag og í alþjóðasamstarfi því að sá sem hefur sterkan grunn að byggja á er líka sterkari í samfélagsþróun og samskiptum þjóða.