142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[14:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Komið hefur fram að vissulega er heimild til þess að færa málaflokka milli ráðuneyta enda hefur enginn gert ágreining um það. Jafnframt hefur komið fram að samræða um málið fór fyrst og fremst fram milli stjórnarflokkanna sjálfra. Enn fremur hefur komið fram að engin sérstök skilgreining á þjóðmenningu lá til grundvallar þessum málaflokkaflutningi, enda er flókið að skilgreina það hugtak. Ég get alveg tekið undir með hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Menning er í eðli sínu kannski landamæralaus. Nægir þar að nefna tónlistina, eins og hv. þm. Óttarr Proppé gerði hér áðan, en við getum líka litið víðar yfir sviðið. Íslensku riddarasögurnar eru auðvitað þýdd menning. Íslensku glæpasögurnar sem núna eru kynntar um heim allan sem séríslenskt og sérnorrænt fyrirbæri eru að sjálfsögðu þýdd menning upphaflega og voru meira að segja þýddar mjög snemma.

Kannski má því segja að íslensk menning hafi einmitt auðgast á því hversu gríðarlega opin hún hefur verið fyrir alþjóðlegum straumum og íslenskir listamenn hafa náð sínum stærstu afrekum með því að fara út í heim eins og við gerðum á söguöldinni þegar Íslendingar fóru um heim allan og færðu íslenskan kveðskap út um heiminn.

Ég hefði talið skynsamlegra í anda þeirrar skynsemishyggju sem þessi ríkisstjórn boðar og mér verður tíðrætt um, að halda menningunni saman því að ég tel að þegar við köfum dýpra ofan í málið sé mjög erfitt og nánast ekki gerlegt að skilgreina þjóðmenninguna sérstaklega með þessum hætti og aðgreina hana frá annarri menningu. Enn hefur mér ekki þótt koma fram í umræðunni markmiðið með þessu. Ég tel að menningunni sé fullur sómi sýndur að því vera í ráðuneyti menningarmála þannig að ég tel það ekki enn hafa komið fram hvernig búið verður betur að þessum málaflokkum sérstaklega eða á hvaða (Forseti hringir.) skilgreiningu þeir byggjast. En ég þakka fyrir umræðuna.