142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Sem meðlimur í efnahags- og viðskiptanefnd hlakka ég til að fara í saumana á þessari tillögu og mun skila vönduðu áliti mínu og Bjartrar framtíðar á henni að lokinni nefndarvinnu. Ég ætla því að láta nægja að þessu sinni að spyrja hæstv. forsætisráðherra einfaldlega nokkurra spurninga.

Það vekur athygli mína að hér er mjög lítið um beinar aðgerðir. Skuldamálin voru einhver stærstu mál síðasta kjörtímabils, fjölmargt um þau rætt, mjög margar skýrslur skrifaðar og margir starfshópar störfuðu að þeim málum, m.a., að mig minnir, nokkrir starfshópar um skuldaniðurfellingu. Seðlabankinn gerði sérstaka úttekt á þeirri hugmynd. Það var nefnd um verðtryggingu sem þáverandi hv. þm. Eygló Harðardóttir veitti forstöðu. Það voru skrifaðar vandaðar skýrslur um verðtryggingu. Lyklafrumvarpið var lagt fram fjórum sinnum og fékk náttúrlega umfjöllun hér í nefndum eins og önnur frumvörp.

Framsóknarflokkurinn og ríkisstjórnin hafa nokkuð skýrt umboð til aðgerða í skuldamálum. Í ljósi þess að búið er að skrifa mikið af úttektum, fara mikið í saumana á þessum málum og fjallað mikið um þau í kosningabaráttunni, af hverju er ekki meira um beinar aðgerðir að ræða í tillögunni? Eru þær ekki mótaðar?

Í öðru lagi. Stendur til að nýta alla þá vinnu og alla þá niðurstöðu, t.d. greiningu Seðlabankans á áhrifum skuldaniðurfellingar, í þeirri vinnu sem fyrir höndum er?