142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:28]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson verður að virða nýrri ríkisstjórn það til vorkunnar að hún getur ekki í ljósi reynslunnar leyft sér að taka þá vinnu sem síðasta ríkisstjórn lét vinna, úttektir á stöðu skuldamála heimilanna, og byggt tillögur sínar á þeirri vinnu, þótt ekki væri nema í ljósi reynslunnar, í ljósi þess að í fjögur ár hefur hér verið horft upp á það að sú vinna sem hv. þingmaður vísar til skilaði stundum engu og stundum jafnvel verri niðurstöðu en ef ekkert hefði verið gert. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður verður því að sýna því skilning að ný ríkisstjórn (Gripið fram í.) vilji kynna sér stöðu mála og útfæra tillögur út frá því. Hann verður jafnframt að sýna þá sanngirni að minnast þess að í umræðu um þau mál hafa þau alltaf verið tengd öðrum málum, til að mynda uppgjöri á þrotabúi gömlu bankanna. Það eru engin ný tíðindi í því.

Hv. þingmaður hlýtur líka að skilja að ný ríkisstjórn vilji læra af mistökum fyrri ríkisstjórnar og setja ekki lög sem ekki standast skoðun, vilji vanda til verks og setja eingöngu lög sem munu standast fyrir dómstólum og standast hvað varðar sanngirni.

Að öðru leyti vil ég bara hvetja hv. þingmann til þess að taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar sem lýsti því yfir áðan að hann mundi ekki standa í vegi fyrir framgangi þessara mál heldur þvert á móti vinna að því að þau næðu sem hraðast og best fram að ganga.