142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:32]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mörgum þeirra spurninga sem hv. þingmaður spurði er svarað í greinargerð og tillögunum sjálfum. Raunar gerði ég það líka að nokkru leyti í ræðu minni áðan. Ég mun reyna að fara yfir það aftur eftir því sem tími vinnst til.

Fyrst varðandi þær nefndir sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega, nefnd um verðtryggingu og svo mat Seðlabankans eða þau álit sem hv. þingmaður nefndi. Verðtryggingarnefnd, sú sem hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir veitti forustu, skilaði niðurstöðu sem bar það með sér að í nefndinni var fólk með mjög ólíka sýn á verðtrygginguna. Fyrir vikið skilaði hún í rauninni fyrst og fremst yfirliti yfir ólíkt mat hvað varðar verðtryggingu. Það er ekki tilgangurinn með þeirri nefnd sem falið verður að vinna að afnámi verðtryggingarinnar.

Hvað varðar hins vegar mat Seðlabankans sem hv. þingmaður vísar til er ég algjörlega ósammála því mati, eins og var töluvert rætt þegar það mat var birt og í kosningabaráttunni.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega í fyrra andsvari að ríkisstjórnin hefði skýrt umboð — skýrt umboð — til að ráðast í þær aðgerðir sem hún hefði talað fyrir fyrir kosningar. Þess vegna, einmitt vegna þess að ríkisstjórnin hefði svo skýrt umboð, vildi hv. þingmaður sjá tillögur í samræmi við það. Það umboð er til þess að ráðast í aðgerðir sem eru mjög ólíkar að mati Seðlabankans. Það getur því ekki farið saman, það sem hv. þingmaður sagði um skýrt umboð til að ráðast í aðgerðir sem þessir stjórnarflokkar hafa talað fyrir og mat Seðlabankans sem fór í allt aðra átt. Við munum að sjálfsögðu beita okkur fyrir stefnu okkar en ekki stefnu fyrrverandi ríkisstjórnar í skuldamálum heimilanna. Það á við um mat Seðlabankans og allt annað mat sem unnið var í tíð þeirrar ríkisstjórnar.

Hvað varðar greiðslubyrðina er því svarað í greinargerð sem og (Forseti hringir.) öðrum athugasemdum eða spurningum hv. þingmanns.