142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég er tilbúinn að hjálpa framsóknarmönnum að koma aðgerðum í framkvæmd, standa ekki í vegi þess, en það er líka skylda okkar í stjórnarandstöðunni að vekja athygli á því að hér er engar aðgerðir að finna. Hér er að finna yfirlit yfir nefndir. Það sem meira er er að ríkisstjórninni finnst hún þurfa, vegna þess að hún hefur ekki úr neinu að spila og getur ekki fundið eitt einasta mál sem raunverulega breytir einhverju núna strax sem hún hefur vald á, að koma með þessa þingsályktunartillögu sem er þannig að ég er hræddur um að það hefði heyrst hljóð úr horni á síðasta kjörtímabili ef okkur hefði dottið í hug að koma með svona minnislista inn á hið háa Alþingi, ef okkur hefði dottið í hug að koma hingað inn með tillögu til þingsályktunar sem fæli ekki í sér annað en: Vinsamlegast minnið ráðherra á að vinna vinnuna sína. Drottinn minn dýri, ég get rétt ímyndað mér hvað hefði heyrst ef við hefðum komið inn með svona bull á síðasta þingi.