142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá hv. þingmanni. Mig langar að byrja á því að þakka honum sömuleiðis fyrir ágætissamstarf í upphafi síðasta kjörtímabils við að reyna í sameiningu að finna lausnir á þessu stóra verkefni, þ.e. stöðu heimilanna eftir hrun.

Í þeirri vinnu sem átti sér stað í upphafi áttaði ég mig fljótt á því að það væri öllum til hagsbóta að reyna að vinna málið sem mest í sameiningu vegna þess að það er þverpólitískt í eðli sínu, varðar okkur öll, alla Íslendinga, og framtíð þjóðarinnar. Þess vegna lagði ég á það mikla áherslu að menn mundu setjast saman yfir verkefnið. Á síðasta kjörtímabili var viðleitni í þá átt upp að ákveðnu marki. Auðvitað verður maður að skilja það að ríkisstjórn á hverjum tíma leggur áherslur og ég veit að hv. þingmaður skilur það.

Ég vil benda hv. þingmanni á að í þessu plaggi kemur fram að leita á leiða til að hafa samráð við þá aðila sem málið varðar. Þetta kemur meðal annars fram á bls. 2 eftir tölulið 10 og jafnframt á bls. 3 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Við vinnuna verður lögð áhersla á að leita eftir víðtækri sátt um þær leiðir sem farnar verða til að ná því markmiði að leysa skuldavanda íslenskra heimila.“

Ég skil þetta svo að áfram verði sá skilningur vonandi uppi hjá öllum flokkum að þetta sé sameiginlegt verkefni okkar. Ég vonast svo sannarlega eftir, þó að það hafi verið svolítill æsingur hér í umræðunni, að sá skilningur sé fyrir hendi hjá Samfylkingunni þar sem hv. þingmaður leiðir málin.

Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann út í lið 10 þar sem hann minntist ekkert á þá upplýsingaleið sem þar er lögð til vegna þess að orðalagið ætti hv. þingmaður að kannast við frá því að hann var með þetta verkefni í fanginu og við stóðum í því að reyna að afla upplýsinga um hver staðan (Forseti hringir.) væri raunverulega.