142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlakka til að sjá hvernig það samráð mun virka og þá sérstaklega af hálfu Samfylkingarinnar vegna þess að mér finnst hafa legið í orðum hv. þingmanna Samfylkingarinnar að þeir sjái það þannig fyrir sér að þar sem Framsóknarflokkurinn hafi unnið stórsigur í kosningunum eigi hann að fá að framfylgja stefnu sinni hér og að þingmenn Samfylkingarinnar hafi lýst því yfir, að því er mig minnir, að þeir hafi áhuga á því að hleypa öllum slíkum málum hratt og vel í gegnum þingið. Ég sé því ekki alveg jafnvægið þarna á milli.

Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann aðeins betur út í 10. lið, þ.e. heimildirnar til þess að afla upplýsinga varðandi raunverulega stöðu, vegna þess að við rákum okkur á það á síðasta kjörtímabili að þessar upplýsingar voru ekki fyrir hendi. Þær voru hér og þar í kerfinu og enginn var með yfirsýn. Þegar á að taka stórar ákvarðanir er varða mikla fjármuni er betra að vera með það á hreinu hver staðan er.

Af því að hv. þingmaður sagði hér að engin mál væru komin fram langar mig bara að benda honum á að þegar hefur verið lagt mál fram af hæstv. innanríkisráðherra varðandi (Forseti hringir.) flýtimeðferð dómstóla sem við höfum þegar tekið til við að vinna í allsherjar- og menntamálanefnd.