142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:52]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir góðar móttökur sem ég hef fengið hér á nýjum vinnustað og ég vona að þetta kjörtímabil verði okkur öllum gott og við í sameiningu, óháð flokkum, getum unnið vel saman því þannig náum við bestum árangri.

Nú hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga sem fjallar um að Alþingi feli ríkisstjórninni að fylgja eftir aðgerðaáætlunum í tíu liðum til að taka á skuldavanda heimilanna. Ég fagna mjög þessari tillögu því hún tekur á mörgum mikilvægum málum sem koma að því ferli að leiðrétta þann forsendubrest sem íslensk heimili urðu fyrir við efnahagshrunið haustið 2008.

Undanfarin ár hafa verið heimilunum mjög erfið. Verðtryggð íbúðalán heimilanna hafa stökkbreyst þannig að þeir sem áttu talsverðan hluta í eignum sínum hafa glatað þeim hluta. Það er ekkert sanngjarnt við það. Ýmsir hafa haldið því fram að þeir sem séu í greiðsluerfiðleikum vegna íbúðalána séu hópur fólks sem fór óvarlega í kaupum á eignum. Það er ekkert hægt að alhæfa um það vegna þess að núna erum við að horfa upp á stóran hóp fólks sem lagði talsvert eigið fé í húsnæði og eignir. Þeir einstaklingar og þær fjölskyldur, fjölskyldurnar í landinu okkar, hafa glatað þeim eignarhluta og meira til. Sparnaður fólks er horfinn og það er ekkert sanngjarnt við það. Við þessu ástandi þarf að bregðast. Heimilin í landinu þurfa á því að halda.

Það eru margir búnir að fá nóg. Margt af þessu fólki mundi gjarnan vilja minnka við sig húsnæði en hefur ekki möguleika á því. Það hefur ekki möguleika á því af því að lánin á húsnæði þess eru orðin talsvert hærri en markaðsvirði eignarinnar. Þessir einstaklingar hafa ekki efni á því að selja eignirnar og taka á sig eftirstöðvar skulda. Það er bara ekki hægt. Þeir eru fastir í eignum sínum og það gengur ekki upp. Það er ekkert sanngjarnt við það. Alls ekki neitt. Þess vegna er mjög ánægjulegt að sjá 3. lið aðgerðaáætlunarinnar sem fjallar um hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir.

Við framsóknarmenn og -konur höfum beðið lengi eftir þessum degi. Við höfum lagt fram margar tillögur á liðnu kjörtímabili, m.a. um 20% leiðina sem var lögð fram árið 2009, þjóðarsátt árið 2010 og plan B árið 2011. Loksins er komið að framgöngu mála með heimilin í forgrunni.

Þess vegna fagna ég því að sjá þessa aðgerðaáætlun lagða fram. Ég hef fulla trú á því að sú vinna sem fram fer í kringum hana muni skila sér í bættum hag fyrir heimilin í landinu.

Fyrsti liður aðgerðaáætlunarinnar fjallar um að settur verði á stofn hópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi. Það er ekkert nema gott um það að segja að skoðaðar séu mismunandi leiðir að því hvernig fara eigi að því að lækka höfuðstólinn og hvaða leið komi íslenskum heimilum best.

Ég get ekki sagt annað en að ég sé mjög ánægð með aðgerðaáætlunina í heild sinni. Hún tekur á mörgum þáttum sem munu hafa jákvæð áhrif á stöðu íslenskra heimila.

Ég geri mér grein fyrir því að þessi vinna mun taka tíma. Ég skil vel að þeir einstaklingar og þau heimili sem bíða eftir niðurstöðu mála séu óþolinmóðir. En við í Framsóknarflokknum viljum vinna málið vel og tryggja réttmæti þeirra aðgerða sem við ætlum að fara í.

Það hefur komið fram á ýmsum stöðum og ýmsir fjallað um það að u.þ.b. 50% heimila í landinu séu tæknilega gjaldþrota. Það gengur ekki upp. Sú staða hefur neikvæð áhrif á efnahagskerfið og við því þarf að bregðast. Það er gert með því að hrinda þessari aðgerðaáætlun í framkvæmd.

Það er mjög ánægjulegt að sjá áherslumál okkar framsóknarmanna komin fram í þessari áætlun. Ég trúi ekki öðru en að allir þingmenn óháð flokkum geti verið sammála um að koma tillögunni í gegn svo hægt sé að vinna að málefnum heimilanna.

Mig langar í lokin að vitna í Vilhjálm Birgisson, verkalýðsleiðtoga á Akranesi, með leyfi forseta, en hann skrifaði bloggfærslu sem ber titilinn „Ég á mér drauma“:

„Ég vil að sá miskunnarlausi forsendubrestur sem heimilin urðu fyrir og bera ekki nokkra ábyrgð á verði leiðréttur. En ég vil taka fram að heimili og alþýða þessa lands eru ekki að biðja um neina ölmusu heldur sanngjarna og réttláta leiðréttingu á þeim skelfilega forsendubresti sem reið yfir íslensk heimili.“

Þarna erum við Villi algjörlega sammála. Ég mun beita mér fyrir þessu máli í þingstörfum mínum.