142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[16:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er auðvelt að svara því. Ég fór yfir það í ræðu minni að leið Samfylkingarinnar til að afnema verðtryggingu væri upptaka gjaldmiðils sem tryggði efnahagslegan stöðugleika sem ógnaði ekki fjárhag heimila. En við erum í þessum sal að ræða tillögur ríkisstjórnar þar sem leiðandi flokkurinn, Framsóknarflokkur, hefur lofað fólki því að verðtrygging verði afnumin.

Við erum því miður ekki að ræða þá leið sem síðasta ríkisstjórn markaði, sem var skynsamleg og ábyrg leið til að komast út úr óstöðugleikanum, heldur tillögur núverandi ríkisstjórnar sem hv. þingmaður styður að því er ég trúi. Það virðist vera mikið misræmi á milli stjórnarflokkanna í afstöðu þeirra til verðtryggingar. Er þá ekkert að marka það sem stendur í stjórnarsáttmálanum um að afnema eigi verðtryggingu? Er ekkert að marka kosningaloforð flokks hæstv. forsætisráðherra sem sagðist ætla að afnema verðtryggingu? Það er mjög alvarlegt í lýðræðisþjóðfélagi að komast til valda og hlaupa strax frá stærsta kosningaloforði sínu.