142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[16:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spurði þingmanninn einfaldrar spurningar. Ég spurði þingmanninn hvort hún væri hlynnt valfrelsi í lánamálum, að einstaklingar á Íslandi hefðu það val að geta tekið verðtryggð lán og/eða óverðtryggð lán. Ekki hvort við ættum að skipta um gjaldmiðil vegna þess að við erum ekki að fara að gera það í náinni framtíð, þó að við getum tekið þá umræðu síðar, báðar tvær. Ég spurði þingmanninn bara einfaldrar spurningar: Er hún hlynnt því að það sé valfrelsi í lánamálum þannig að fólk geti tekið verðtryggt lán, óski það þess, eða óverðtryggð lán?

Ég ætla ekki að blanda mér í það hver eru kosningaloforð annarra flokka en flokksins míns. En ég spyr þingmanninn þessara einföldu spurningar og bið hann um svar við því. Svarið að best sé að taka upp annan gjaldmiðil, á ekki við. Þetta er einföld spurning: Er þingmaðurinn hlynnt valfrelsi hvað óverðtryggð lán og verðtryggð lán varðar, að það sé neytenda að velja?