142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[16:14]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Mig langar í tilefni þess að ég stend í pontu Alþingis í fyrsta skipti að óska hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn hans innilega til hamingju og árna ég henni alls góðs í störfum hennar á komandi tímum. Eins óska ég öllum kjörnum þingmönnum til hamingju með kjörið og vænti ég mikils af samstarfi okkar allra á þingi. Ég vil einnig þakka þær hlýju móttökur sem ég hef fengið hér, bæði frá þingmönnum og ekki síst því frábæra starfsfólki sem starfar á Alþingi. Það er með mikilli tilhlökkun sem ég tek til starfa, tilhlökkun sem stafar af því góða viðmóti sem ég hef fengið frá öllum og fær mig til þess að trúa að hér sé gott að starfa. Ég fer ekki í neinar grafgötur með það að ég er einnig nokkuð kvíðinn og helgast sá kvíði einkum af því að þetta starf er í mínum augum gífurlega viðamikið og krefjandi. Sú sannfæring mín hefur verið staðfest á fyrstu dögum mínum sem þingmaður. Það er alveg ljóst að enginn verður óbarinn biskup í þessu starfi frekar en öðru.

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem er lagt til grundvallar þessari umræðu er góðra gjalda vert. Það er gleðilegt að komin sé fram aðgerðaáætlun um hvernig koma á til móts við skuldavanda heimilanna. Hún hefur vakið upp umræður og spurningar sem mörgum finnst ósvarað og kom hv. þm. og formaður Bjartrar framtíðar, Guðmundur Steingrímsson, inn á þær í andsvari í dag. Ég ætla ekkert að fara meira yfir þær en tel víst að svör fáist við þeim spurningum í þeirri umræðu sem fer fram hér og svo á seinni stigum umræðna um málið.

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram hjá öllum stjórnmálaflokkum og hæstv. forsætisráðherra nefndi það margoft í stefnuræðu sinni að allir flokkar muni greiða götu stjórnarinnar í að ná tökum á skuldavandanum. Það er einnig svo hjá okkur í Bjartri framtíð. Ég get heitið því að ég mun leggja mig allan fram við að farsælar niðurstöður fáist í þeim mikla vanda.

Hér tala menn mikið um stjórn og stjórnarandstöðu. Mér hugnast það tal ekkert vel þar sem ég lít ekki á mig sem sérstakan andstæðing þessarar stjórnar, en ég viðurkenni fúslega að ég er ekkert sérstaklega mikill aðdáandi hennar heldur. Meiri hluti og minni hluti er eitthvað sem mér hugnast betur þegar við erum að starfa á vettvangi eins og þessum.

Það hefur að mínum dómi gætt fullmikillar óþolinmæði hjá þingmönnum um aðgerðir stjórnarinnar. Ég tel að ekkert sé að því að gefa henni svolítinn tíma til þess að ná markmiðum sínum. Þessi forgangsröðun á málum hennar hefur reyndar komið mér spánskt fyrir sjónir og ég er viss um að margir kjósendur eru sammála því að þau mál sem fyrst hafa verið lögð fram á þinginu eru ekki þau mál sem menn reiknuðu með. Stjórnin verður líka að taka því að hún sé spurð sjálfsagðra spurninga og benda ekki alltaf á síðustu ríkisstjórn. Mér finnst svolítið hvimleitt að alltaf sé verið að benda á hana. Fyrstu dagarnir voru bara eins og var síðast, þetta var málþóf fannst mér og hundleiðinlegt. Það er alltaf verið að benda á annan. Það er þessi ríkisstjórn sem er núna við völd og hún verður að svara spurningunum. Hún á ekkert að skammast sín fyrir það þótt ekki sé allt klappað og klárt. Hún á að viðurkenna það undanbragðalaust og halda áfram.

Hæstv. forseti. Það sem ég hef og mun hafa að leiðarljósi í mínum störfum sem þingmaður er almannaheill, en um það snúast stjórnmálin og ekkert annað. Starfslýsing stjórnmálamannsins er einfaldlega farsæld þjóðar. Við öll sem erum kosin inn á hið háa Alþingi skuldum þjóðinni að standa saman.

Það er þyngra en tárum taki að hlusta á umræðuna úti í þjóðfélaginu um stjórnmálamenn og ekki síst þá sem starfa sem þingmenn. Það er okkar að breyta því viðhorfi og það gerum við með því að sýna hvert öðru auðmýkt, virðingu og umburðarlyndi. Þannig aukum við traust sem er frumskilyrði mannlegra samskipta. Traustið heldur samfélagi manna saman og um leið og það dvínar fer að halla undan fæti. Það höfum við séð hér á þessu landi.

Hæstv. forseti. Það er einlæg von mín að við sem komum til með að starfa á komandi missirum berum gæfu til þess að efla samstarfsandann og breyta stjórnmálamenningunni sem var dæmd ónýt í hinni góðu rannsóknarskýrslu Alþingis, sem allt of margir virðast hreinlega hafa gleymt.

Það eina sem við þurfum er vilji því að eins og hinn mikli meistari Muhammad Ali sagði, með leyfi forseta:

„Meistarar verða ekki til í leikfimisalnum. Meistarar verða til úr því sem býr dýpst í þeim sjálfum, ástríðum, draumi og hugsjón. Þeir þurfa bæði að hafa leikni og vilja, en viljinn verður að vera sterkari en leiknin.“

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum segja aftur og beina orðum mínum til okkar allra að við skuldum almenningi í landinu að starfa saman af heilindum. Ef við gerum það og breytum hugarfari, viðhorfum og samskiptum, er ég þess fullviss að við tryggjum okkur sjálfum og ekki síst börnum okkar, barnabörnum og öllum þeim ófæddu einstaklingum sem eiga eftir að búa á þessu stórkostlega landi bjarta framtíð.

Við hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn hans vil ég segja: Takið orð míns fallega samstarfsmanns og hv. þingmanns, Óttars Proppés, til eftirbreytni og vinnið að hætti íkornans sem er lúsiðinn og útsjónarsamur, en ekki að hætti bjarnarins sem æðir áfram og engu eirir. Ekki síst í ljósi þess að þeir birnir sem á fjörur okkar Íslendinga skolar, blessaðir ísbirnirnir, eru undantekningarlaust aflífaðir.