142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[16:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki verið í salnum þegar ég var á mælendaskránni síðast en ræður voru nokkru knappari heldur en ég hafði ráðgert, enda vanur gömlum ræðuhundum hér í salnum og ekki þessu skorinorða fólki sem er komið á vettvang og ástæða til að bjóða enn og aftur velkomið.

Ég átti nokkur orðaskipti við hæstv. forsætisráðherra í upphafi umræðunnar um tvennt sem mér fannst nauðsynlegt að fá skýrt: Hvort það sé ekki öruggt að afnema eigi verðtryggingu og hvort ekki eigi örugglega að bæta verðtryggingarþátt lánanna sem var umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans, þannig að alveg skýrt væri frá upphafi hvað það væri sem skuldarar gætu vænst að fá út úr þessum aðgerðum um leið og maður reyndi að hafa skilning á því að það tæki lengri tíma að vinna að þeim.

Ástæðan fyrir því að ég spurði um það tvennt er að á síðasta kjörtímabili var ég formaður efnahags- og viðskiptanefndar og talaði mjög eindregið fyrir því að við lærðum það af hruninu að hverfa frá séríslenskum lausnum í efnahagsmálum eins og verðtryggingu. Ég lét á það reyna í nefndinni að ná þverpólitísku samkomulagi um að fara í afnám verðtryggingar. Ég lagði þar fram áætlun í 10 liðum sem var vel tekið af fulltrúum úr ýmsum flokkum, en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru hins vegar á þeim tímapunkti algerlega ófáanlegir til að banna verðtryggingu, afnema verðtryggingu út frá svipuðum sjónarmiðum og heyra mátti fyrr í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um valfrelsi. Valfrelsið er í sjálfu sér fyrir hendi. Fólk hefur valið sig frá verðtryggingunni og það hefur verið sett inn heimild fyrir Íbúðalánasjóð til að gefa út óverðtryggð bréf og þeir munu fara í þá útgáfu.

Í því væri ekkert nýtt og þess vegna er það fagnaðarefni að Framsóknarflokkurinn skuli hafa náð samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn um að afnema, banna verðtryggingu í landinu. Það var hið stóra loforð um verðtrygginguna sem gefið var í kosningunum, að hún yrði afnumin, og er mikilvægt að það standi vegna þess að Framsóknarflokkurinn fékk glæsilegt umboð til að fylgja því loforði sínu eftir að afnema verðtrygginguna, sem ég held að þjóni okkur sannarlega ekki hér hvaða gjaldmiðil svo sem við ætlum að hafa.

Í öðru lagi spurði ég hvort ekki væri öruggt að bæta ætti fólki þann verðbótaþátt lána sinna eftir hrun sem orsakaðist af verðbólgu umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. Það er leiðrétting á svokölluðum forsendubresti eins og talað hefur verið um. Hæstv. forsætisráðherra dró fram að það sem um væri að ræða væri það sem væri umfram vikmörk peningastefnunnar. Það eru þá 4% á ári, sú verðbólga sem væri umfram þar.

Ég fagna því að það er þá alveg skýrt að það er það sem á að bæta fólki eða leiðrétta hjá fólki, verðbótaþátturinn sem er umfram þessi 4%. Þá veit fólk hvað það er sem þingmenn stjórnarflokkanna hafa tekið sér fyrir hendur að gera og þarf ekki að velkjast í vafa um þær upphæðir sem það má eiga von á að verði í leiðréttingum. Það er þó ástæða til að halda því til haga að í tillögunni er gert ráð fyrir því að það geti orðið þak á leiðréttingunni. Ég held að það sé algerlega málefnalegt sjónarmið og ég fagna því í raun vegna þess að ég held að það væri ákaflega mikið óráð ef hér væru einfaldlega greiddar út úr ríkissjóði óendanlegar upphæðir til allra. Ég held að það væri ekkert óeðlilegt að miða við þak sem tæki annaðhvort mið af algengustu eða rúmaði mestallt íbúðarhúsnæði, venjulegt húsnæði sem venjulegt fólk eða barnafjölskyldur er að reisa sér, en næði ekki til þeirra sem eru með gríðarlega há lán eða gríðarlega dýrar eignir, segjum 100 millj. kr. lán eða 200 millj. kr. lán eða hvað menn vilja taka.

Ég hef haft djúpa sannfæringu fyrir því að í svona lagfæringu ætti að fara gagnvart þeim sem keyptu á bóluárunum frá ágúst 2004 og fram að hruninu í október 2008. Það fólk varð sannarlega fyrir þremur áföllum í senn, sannarlega fyrir forsendubresti og það hefur lengi verið eindregin sannfæring mín. Ég hef ítrekað flutt um það tillögur, þó að þær hafi ekki náð fram að ganga hjá meiri hlutanum hér á síðasta kjörtímabili, að þessi hópur þyrfti leiðréttingar við vegna þess að stjórnmálin komu inn á markaðinn í ágúst 2004 með algerlega óábyrgar aðgerðir, 90% húsnæðislán sem Framsóknarflokkurinn hafði í kosningunum áður lofað til að ná góðri kosningu. Þau var alger skyssa í efnahagsmálum sem á örskömmum tíma leiddi til þess að fyrir efnahagshrunið voru íslensk heimili orðin þau skuldsettustu í heimi vegna 90% lána Framsóknarflokksins, þau skuldsettustu í heimi vegna þess að hér var peningum dælt endalaust: Allt fyrir alla. Menn þurfa að læra af þeirri reynslu og gæta sín á því að fara ekki aftur í þá vegferð að gera allt fyrir alla.

Ég hef síðan sjálfur ekki haft sannfæringu fyrir því að það hafi endilega orðið forsendubrestur hjá öllum þeim sem keyptu fyrir þennan tíma. Ég hef átt erfitt með að sjá hann hjá einhverjum sem keypti sér eign, segjum árið 1997, og tók til þess verðtryggt lán. Þótt það kunni að hafa hækkað um kannski þriðjung frá því að það var tekið og sú fasteign var keypt þá er það þannig að laun í landinu hafa síðan margfaldast og fasteignaverð í landinu hefur síðan margfaldast. Ég hef aldrei haft sterka sannfæringu fyrir því að við sem vorum að kaupa til dæmis á þessum tíma höfum orðið fyrir einhverjum forsendubresti, þ.e. að við gætum gert tilkall til þess öll árin þegar laun hækkuðu meira en lánin, öll árin þegar fasteignaverðið hækkaði meira en lánin, við höldum þá bara þeim ávinningi, en svo þegar komu tvö ár þar sem þetta var á hinn veginn þá eigi að leiðrétta okkur það. Ef fyrir því eru sterk rök og fyrir því er komin lýðræðisleg niðurstaða í almennum alþingiskosningum þá er einboðið að það sé gert því að kjósendum var lofað því. Ég fagna því að forsætisráðherra hefur tekið af tvímæli um að leiðrétta eigi gagnvart verðtryggðum íbúðalánum þá fjárhæð í verðbótaþættinum sem var umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans eftir hrun. Það eru auðvitað gríðarlega miklar fjárhæðir og ég treysti því að það nái einvörðungu til íbúðalána og kannski ástæða til að spyrja hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem best til þess að þekkja. Mér hefur að minnsta kosti sjálfum aldrei fundist það koma til álita að einhverjir sem tóku 20 millj. kr. verðtryggt íslenskt lán til að kaupa hlutabréf eða taka einhverjar slíkar áhættur eða gera óskylda hluti því að koma sér upp heimili ættu að fara að fá einhverjar sérstakar endurgreiðslur úr ríkissjóði af þeim sökum.

Ég vona að það sé hugmyndin og treysti því að þingmenn Framsóknarflokksins staðfesti að þannig sé vegna þess að hitt væri sannarlega algert óráð. Þingmenn verða að hafa í huga að þeir peningar sem fara í þessa leiðréttingu munu koma úr ríkissjóði og þeir verða til þannig að börnin okkar eru þeim mun skuldsettari þeim mun meiri sem leiðréttingarnar verða. Alveg sama hvernig við snúum þessu þá er það svo. Þess vegna þarf maður að hafa mjög sterka sannfæringu fyrir leiðréttingunni og fyrir því til hverra hún nær. Eins og ég segi, ég hef haft mjög sterka sannfæringu fyrir þessum hópi en tel sannarlega ekki að nein ástæða sé til að endurgreiða vegna annarra lána þeim sem tengjast íbúðarhúsnæði með því að auka sem því nemur skuldir ríkissjóðs og þar með komandi kynslóða. Það væri algerlega óábyrgt af okkar hálfu. Ég spyr líka hv. þingmenn Framsóknarflokksins hvaða þak þeir sjá fyrir sér að verði á þessum leiðréttingum í krónutölu, eru það 3 millj. kr., 5 millj. kr., 10 millj. kr. eða 50 millj. kr., bara svona einhverja nálgun, einhverja hugmynd um það á hvaða vegferð menn eru? Ég held að það væri líka hjálplegt í því að eyða óvissunni og láta fólkið þarna úti sem er í vanda vita hvers er að vænta.