142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[17:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Umræðan er nokkuð í stíl við það sem búast mátti við. Hingað komu hæstv. forsætisráðherra og fulltrúar ríkisstjórnar og kynntu okkur frábært tíu punkta plagg, aðgerðaáætlun, til að reisa við heimilin í landinu. Stjórnarandstaðan kemur fram eftir að hafa lesið plaggið og segir að það sé harla rýrt og ekki í samræmi við það sem menn hafi búist við, raunhæfum tillögum á þessu stigi en ekki nefndum og starfshópum. Þá kveðja þingmenn stjórnarmeirihlutans sér hljóðs og gagnrýna stjórnarandstöðuna fyrir ómálefnalega umræðu. Ég er búinn að heyra nokkra þingmenn stjórnarmeirihlutans koma hingað í pontu og kvarta yfir ómálefnalegri umræðu.

Ég verð að segja að það er ekkert ómálefnalegt við að benda á það þegar stjórnarflokkar nýkomnir inn í Stjórnarráðið á þeirri forsendu að þeir ætli að hrinda tilteknum hugmyndum í framkvæmd, þegar í ljós kemur að slíkar tillögur eru ekki til, þær eru bara loft, bara bóla, að á það sé bent. Það er málefnalegt vegna þess að það snýst um lýðræðið í landinu. Ef stjórnmálaflokkar ætla að vera trúverðugir verða þeir að rísa undir því að framkvæma eða reyna að framkvæma það sem þeir lofa. Hér erum við því miður einungis að sjá starfshópa og nefndir en engar raunverulegar framkvæmdir, nema í einu tilviki. Eitt mál er komið fram hér í þinginu og það er um flýtimeðferð í réttarkerfinu, það liggi mikið á að fá þetta samþykkt núna í vor vegna þess að það sé mikið hagsmunamál fyrir skuldugt fólk.

Nú vill svo til að það er réttarhlé, dómstólarnir verða ekki starfandi fyrr en í september, þannig að þetta eina mál sem er raunveruleg tillaga um úrbætur núna er líka bara orðin tóm fyrir utan það að flýtimeðferðarformúlan orkar nokkuð tvímælis. Í fyrsta lagi er það svo að vandinn í réttarkerfinu hvað varðar lánamálin liggur ekki eða öllu heldur rót hans liggur ekki í dómskerfinu heldur hjá fjármálafyrirtækjunum. Hún liggur þar. Fjármálafyrirtækin hafa her lögfræðinga á sínum snærum og þegar það síðan gerist eins og lagt er til eða kveðið er á um í greinargerð þingmálsins að dómstólar skuli hafa alla fresti sem allra stysta þá getur það verið hinum skulduga manni í óhag. Hann hefur ekki her lögfræðinga sér við hlið heldur iðulega einn lögfræðing, ef hann hefur yfirleitt kost á að greiða fyrir slíkt, og skammur frestur getur komið honum í koll. Ég nefni þetta sem dæmi. Þetta eru að sjálfsögðu hlutir sem hafa verið skoðaðir enda vorum við minnt á að þingmál af þessu tagi hafa áður komið fram. Þetta leysir í sjálfu sér ekki vandann.

En aðeins um málið í heild sinni. Ég vil taka undir með þeim sem óska eftir þverpólitísku samstarfi um þessi mál, ég vil gjarnan taka þátt í slíku og stuðla að framgangi góðra mála. Slíkt samstarf var ástundað á síðasta kjörtímabili. Ég minnist þess þegar við sátum dag eftir dag og kvöld eftir kvöld í þverpólitískum nefndum. Við sameinuðum nefndir jafnvel tímabundið um tiltekin úrlausnarefni, allsherjarnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og félagsmálanefnd. Það var ekki svo að ekkert væri aðhafst. Hér varð til embætti umboðsmanns skuldara. Ráðist var í úrræði á borð við greiðslujöfnun og skuldaaðlögun og gengið var í að ræða við fjármálastofnanir um niðurfærslu á lánum. Útkoman úr því var svokölluð 110%-leið. Við vorum mörg sem vildum fylgja áherslum Hagsmunasamtaka heimilanna og fara í niðurfærslu á skuldum. Það var nokkuð sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði mjög strangt bann við, vildi það alls ekki, og það voru líka deildar meiningar um það í þinginu þverpólitískt, bæði innan stjórnarliðsins og í stjórnarandstöðunni.

Ég man eftir því að hv. þm. Helgi Hjörvar talaði fyrir því fyrir ekki svo ýkja löngu að það yrði skoðað hvort unnt væri að gera þetta hjá Íbúðalánasjóði, að við færum þá leið þar. Það er ekki svo að þessar umræður hafi ekki verið vakandi í þinginu og þverpólitískt, eða að menn hafi hugsað mjög flokkspólitískt um þessi efni. Menn hafa verið að reyna að leita leiða til að leysa hinn alvarlega skuldavanda og þegar upp er staðið hefði verið hyggilegt að mínum dómi — ég var allan tímann á þeirri skoðun — að fara niðurfærsluleiðina en þá hefði þurft að gera það í tengslum við neyðarlög. Þegar við efndum til mikilla funda í Þjóðmenningarhúsinu haustið 2010 með öllum fjármálastofnunum í landinu, lífeyrissjóðunum og pólitíkinni, fulltrúum allra stjórnmálaflokka, þá komumst við hvorki lönd né strönd með fjármálakerfið hvað þetta snerti, hvorki lífeyrissjóðina né bankakerfið.

Hvað gerðum við þá? Við fórum aðra leið. Við skattlögðum fjármálastofnanir til að fá inn fjármagn til að standa straum af sérstökum vaxtabótum. Þessar sérstöku vaxtabætur ásamt vaxtabótunum sjálfum námu á tímabili 18 milljörðum á ári. Lágtekjumaður var að fá 45% af öllum vaxtakostnaði sínum greiddan með þeim hætti. Auðvitað skipti þetta allt máli. Eða halda menn að við höfum setið aðgerðalaus? Því fer fjarri.

Við ræddum lyklafrumvarpið. Þar var ágreiningur uppi, ekki bara milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur innan þingliðsins alls. Við hlustuðum á sjónarmið Seðlabanka, við hlustuðum á sjónarmið annarra aðila og við vorum uppi með mismunandi hugmyndir hvað þetta snertir. Þegar menn óska eftir málefnalegri umræðu þá segi ég: Látið okkur öll njóta sannmælis líka og horfum af raunsæi til þess hvað hefur verið gert í þessum málum.

Við skipuðum ráðherranefnd til að ræða við lífeyrissjóðina um lánsveðin. Við náðum niðurstöðu sem við vorum ekkert sérstaklega sátt við vegna þess að við vorum gagnrýnin á lífeyrissjóðina hve íhaldssamir þeir voru í þessu efni. En við náðum að leysa það áður en kjörtímabilið var úti. Síðan eru aðrir þættir þarna sem á eftir að taka á. Það eru tilteknar fjármálastofnanir sem hafa ekki staðið sig sem skyldi og ekki einu sinni farið að þeim úrræðum sem fjármálastofnanir eða samtök þeirra náðu við ríkisstjórnina, til dæmis varðandi 110%-leiðina, ég nefni þar Dróma sérstaklega. Þar voru gerð mistök á sínum tíma með því að fela slitastjórn samskiptin við lántakendur. Hvergi er minnst á það í þessu plaggi. En síðan koma stjórnarþingmenn hingað upp og segjast vonast til þess að þetta þingmál nái fram að ganga, það sé gríðarlegt hagsmunamál. Hvað? Að sest verði yfir málið? Já. En við héldum að nú á vordögum og í byrjun sumars værum við að fá í hendur tillögur um hvernig ætti að taka á málinu. Það að ræða þetta og gagnrýna er málefnalegt. En það er ómálefnalegt ef menn horfa ekki til þess sem hér hefur verið gert á undanförnum fjórum árum. Látið þau sem að því stóðu njóta sannmælis.