142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[17:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér öðru sinni og átti eftir að ljúka fyrri ræðu minni, en áður en ég geri það vil ég koma örstutt inn á húsnæðismálin.

Í þingsályktunartillögunni er talað um að koma eigi með tillögur að framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Það hvarflar satt best að segja að mér að ríkisstjórnin hafi fylgst jafn illa með í þeim málaflokki og ríkisfjármálunum á síðasta kjörtímabili. Það var mótuð húsnæðisstefna. Það var þverpólitísk vinna sem áttu aðild að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, annarra stjórnmálaflokka, Alþýðusambands Íslands, BSRB, BHM, Samtaka atvinnulífsins og svo mætti lengi telja. Þessi stefna liggur fyrir í skýrslu frá apríl 2011. Á grundvelli hennar hefur verið gríðarlega mikil vinna í gangi og skilað hefur verið tillögum um hvernig eigi að miðla upplýsingum um húsnæðismarkaðinn til að efla þann markað og gera öruggari, tillaga um nýjar húsnæðisbætur, tillaga um gerð húsnæðisáætlunar, tillaga um rekstrar- og skattumhverfi húsnæðisfélaga og tillögur um framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs og lánveitingar hans. Þetta var unnið mjög breitt og mjög þvert því að húsnæðismál eru ekki eitthvað þar sem stefnunni er breytt frá einu kjörtímabili til annars.

Ég vona svo sannarlega að velferðarnefnd fái þessar tillögur til umfjöllunar. Þarna tel ég að verði að flétta inn í þá vinnu sem þegar hefur verið unnin því að það er tímafrekt að breyta húsnæðismarkaðnum. Það er alvörumálefni sem á að taka mið af þeirri merku vinnu sem fram hefur farið.

Ef einhver efast um orð mín, því að það virðist einkenni á hæstv. forsætisráðherra að hann telur okkur öll dylgja ef við erum ekki með honum í flokki, þá er Samband íslenskra sveitarfélaga búið að innleiða þessa stefnu í sína stefnu. Reykjavíkurborg er með stefnu í þessum anda og er þegar farin að vinna eftir henni. Þetta gengur út á húsnæðisöryggi, fjölbreyttari búsetuform með svipuðum stuðningi óháð því hvort fólk á eða leigir og félagslega samheldni og er stefna sem allir hljóta að geta fellt sig við. Satt best að segja, því að ég hef komið mikið nálægt þessum málum, liggur við að mér sárni að athyglin á því sem vel hefur verið gert sé svona lítil.

Nú ætla ég að ljúka fyrri ræðu minni, herra forseti. Þar var ég komin að því að ríkisstjórnin er búin að loka dyrunum á upptöku nýrrar myntar, hún gerði það bara í beinni útsendingu á blaðamannafundi klukkan fjögur í dag, en boðar samhliða afnám verðtryggingar. Þá spyr ég: Af hverju ekki að eyða óvissunni og gera þetta strax? Þannig er komið til móts við heimilin. Það er einfalt að útbúa frumvarp þess efnis og samþykkja strax á sumarþingi. Af hverju gerir hæstv. ríkisstjórn þetta ekki? Jú, því að þá kæmist hún ekki upp með þá óábyrgu stjórn ríkisfjármála sem nú er stunduð og felur í sér lækkun veiðigjalds á LÍÚ, afnám auðlegðarskatts á ríkustu fjölskyldur landsins og lækkun virðisaukaskatts á neyslu erlendra ferðamanna.

Hægri stjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar getur hrist fram úr erminni dýrar aðgerðir fyrir forréttindahópa í íslensku samfélagi en þegar kemur að heimilunum, almenningi í landinu, þá eru svörin: Við skulum sjá til í haust.